Nítján ára karlmaður sem í júní á síðasta ári hlaut tólf ára fangelsisdóm fyrir manndráp, eftir að hafa stungið mann til bana við verslunina Fjarðarkaup, er nú þegar kominn á Vernd. RÚV greindi fyrst frá.
Settur fangelsismálastjóri segir í samtali við mbl.is alltaf reynt að takmarka tíma ungs fólks í lokuðu fangelsi. Hann bendir á að mikið eftirlit sé með föngum á Vernd og alltaf sé hægt að færa fólk til baka í lokað fangelsi, gangi afplánunin ekki upp með þeim hætti. Hann getur þó ekki tjáð sig um einstök mál fanga.
„Það gilda aðeins önnur lögmál um unga afbrotamenn sem hafa hlotið dóma. Í lögum um fullnustu refsinga kemur meðal annars fram að það er miðað við 21 árs aldur. Þá er reynt að hafa það þannig að viðkomandi fullnusti einn þriðja refsingarinnar,“ útskýrir Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri, í samtali við mbl.is.
Vegna ungs aldurs þarf maðurinn því aðeins að afplána fjögur ár af dómnum. Sé tekið mið af því að hann hafi verið í gæsluvarðhaldi frá því manndrápið átti sér stað, í apríl á síðasta ári, hefur hann nú þegar afplánað eitt og hálft ár af dómnum.
Þegar ákvörðun er tekin um það hvernig viðkomandi afplánar refsingu þarf að taka mið af nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi hvort viðkomandi hafi setið í gæsluvarðhaldi sem dregst þá frá lengd afplánunar. Síðan er horft til þess að tími í lokuðu fangelsi sé takmarkaður, en önnur úrræði eru til staðar, eins og opin fangelsi, Vernd og rafrænt eftirlit áður en reynslulausn kemur til álita.
Einstaklingur getur að hámarki verið í 18 mánuði á Vernd og er þá tekið mið af þyngd dómsins.
„Það sem við erum að horfa á í þessu sambandi er að það sé að baki farsæl betrun út í samfélagið, ekki síst fyrir ungt fólk,“ segir Birgir.
„Ég held að lokað fangelsi sé ekki endilega besta leiðin til að aðstoða fólk út í samfélagið aftur, en vissulega eru „conflictar“ ég átta mig á því. Þetta er alls ekki hafið yfir vafa og er dálítið matskennt í hverju tilviki fyrir sig. Þetta veltur svolítið á því hvernig viðkomandi er tækur til meðferðar og hegðun hans; er hann tilbúinn til að koma sér aftur á lappir, ef við getum sagt sem svo, breyta rétt og koma lífi sínu á réttan kjöl.“
Birgir segir mjög ströng skilyrði á Vernd og mikið eftirlit með föngunum. „Þetta er úrræði sem hefur reynst afskaplega vel en ef þetta gengur ekki, svona almennt, þá er bara stigið til baka. Þetta er allt bundið því að viðkomandi sýni vilja til þess að bæta ráð sitt. Það er þessi betrun út í samfélagið sem við erum að horfa á.“
Hann tekur þó fram að reynt sé að stíga varlega til jarðar með að færa ungt fólk aftur í lokað fangelsi.
„Það er mjög ríkjandi í okkar löggjöf að horfa til ungs aldurs við ákvörðun refsingar. Það endurspeglar að mörgu leyti okkar stefnu.“