Skólameistarafélag Íslands fagnar frumvarpi mennta- og barnamálaráðherra um gjaldfrjáls námsgögn barna að 18 ára aldri og telur að það muni hafa mikil áhrif á framhaldsskólana. Gjaldfrjáls námsgögn muni leiða til aukins námsárangurs og draga úr brotthvarfi.
Skólameistarar benda hins vegar á að framkvæmdin gæti orðið flókin ef skólarnir sjálfir eigi að dreifa námsgögnunum.
„Því væri vert að skoða hvort hægt væri að innleiða kerfi þar sem greiðslur vegna námsgagna rynnu beint til nemenda sem stunda nám. Með þessu væri mögulega hægt að einfalda dreifingu og stuðla að aukinni ábyrgð og sjálfstjórn nemenda í námsgagnakaupum,“ segir í umsögn félagsins um frumvarpið.
Áætlað hefur verið að heildarkostnaður við gjaldfrjáls námsgögn í framhaldsskólum gætu árlega verið á bilinu 340 til 380 milljónir króna. Er þá miðað við að hver nemandi í framhaldsskóla þurfi námsgögn að andvirði um 40.000 krónur á ári.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.