„Við ætlum ekki að láta þjóðgarðinn stoppa okkur“

Birgir segir Niflheima áskilja sér rétt til skaðabóta.
Birgir segir Niflheima áskilja sér rétt til skaðabóta. Samsett mynd

Íshellafyrirtækið Niflheimar ehf., sem á dögunum var kært til lögreglu og fékk tilkynningu um að það fengi ekki endurnýjað starfsleyfi til íshellaferða á Breiðamerkurjökli, býður fólki enn upp á íshellaferðir í jöklinum.

Birgir Þór Júlíusson, einn eigenda Niflheima, segir að íshellaferðirnar séu unnar í verktöku fyrir Tröllaferðir, sem hefur haft leyfi til að fara á jökulinn.

Í fyrstu hafi fyrirtækið ætlað að fara í íshellaferðir þrátt fyrir að ekkert leyfi hefði verið til staðar en úr varð að þessi leið verktöku varð fyrir valinu.

Að sögn Birgis er þó ekkert þeirra fyrirtækja sem starfar á jöklinum með starfsleyfi eins og sakir standa. Eru þær ástæður gefnar að tæknilegir örðugleikar valdi því að engin leyfi hafi verið gefin út. 

 „Við vorum með 270 manns bókaða fyrsta daginn,“ segir Birgir. Þá hafi hann verið að vinna með tólf manns á þeirri vakt og í dag eru tíu bókaðir á vakt að sögn hans. 

Bilun í tölvukerfi 

Munuð þið halda áfram með ferðir?

„Já, Tröllaferðir hafa haft þetta leyfi. En það er reyndar enginn með leyfi eins og stendur því þjóðgarðurinn ætlaði að gera bráðabirgðasamning sem til stóð að undirrita á þriðjudag og svo átti að kynna hann í dag á fundi,“ segir Birgir.

„Svo var einhver bilun í tölvukerfi þannig að nýi samningurinn hefur ekki verið sendur á rekstraraðila á svæðinu.“

Lögfræðingurinn breytti plönunum 

Að sögn hans voru Niflheimar búnir að leigja húsnæði á Höfn og ráða fjölda manns í vinnu. Þá hafi fyrirtækið breytt bílum, gert við bíla og verið með verkstæði og notað í það „haug af peningum“.

„Við fáum póst 4-5 dögum fyrir ferðir að þeir ætli að gera okkur leyfislausa. Ég hugsaði bara með sjálfum mér: Við ætlum ekki að láta þjóðgarðinn stoppa okkur. Þeir verða þá bara að láta lögguna stoppa okkur. En svo heyrði ég í lögfræðingi sem sagði það ekki góða hugmynd upp á skaðabótakröfu síðar,“ segir Birgir.

„Þá heyrði ég í Tröllaferðum sem leyfðu okkur í góðmennsku sinni að fara á jökulinn inn á sínu leyfi. Við erum því bara að vinna hjá þeim en Niflheimar liggja niðri núna. En það er ekkert hægt að taka þetta fólk á jökulinn nema með bílunum okkar þannig að við erum núna að vinna hjá Tröllaferðum og leigja þeim bílana. Við erum því algjörlega upp á aðra komin núna.“

Áskilja sér rétt til skaðabóta 

Að sögn Birgis hafa Niflheimar sent bréf til þjóðgarðsins þar sem fyrirtækið áskilur sér rétt til skaðabóta eftir að þjóðgarðurinn gaf það út að leyfi þeirra yrði ekki endurnýjað.

Ekki náðist í Steinunni Hödd Harðardóttur, þjóðgarðsvörð Vatnajökulsþjóðgarðs, og Ingibjörgu Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra þjóðgarðsins, við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert