Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, segir að Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, beri ábyrgð á því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, hafi ákveðið að slíta stjórnarsamstarfinu.
Þetta kemur fram í færslu Össurar á Facebook.
„Svandís bjó til mjög einfalt plott sem fólst í að slíta ríkisstjórninni á hentugum tíma fyrir VG og keyra svo í kosningar undir því flaggi að VG hefði steypt undan Sjálfstæðisflokknum. Þannig ætlaði hún að krafsa til sín atkvæði af vinstri vængnum í nægum mæli til að bjarga ræflinum sem eftir er af VG. Þetta var í sjálfu sér ágætis plan og hefði kannski getað bjargað VG fyrir horn,“ ritar Össur.
„Það var hins vegar alger afleikur hjá henni að storka Bjarna með því nánast að núa þessu plani upp í nasir hans og lýsa því yfir ásamt Mumma varaformanni að VG ætlaði auk þess að leggjast þvert gegn þeim málum tveimur sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur ofuráherslu á, innflytjendamálin og orkumál.“
Þá kemur fram að yfirlýsingar Svandísar hafi knúið Bjarna í reynd til að taka frumkvæðið og slíta stjórninni á undan henni.
„Þetta var grófur afleikur hjá Svandísi. Hún virðist hafa verið slegin algerri skákblindu, því í stöðunni átti Bjarni engan annan kost en rjúfa stjórnarsamstarfið. Svandís hrinti honum út í þá ákvörðun. Hann hefur þá fullkomnu afsökun að yfirlýsingar nýs formanns VG gerðu hana einfaldlega óstjórntæka – og þar með hennar flokk,“ ritar Össur.
Loks veltir hann því upp hvort ákvörðun Svandísar leiði til þess að Svandís verði skammlífasti formaður í sögu Vinstri Grænna.
„Atburðarásin sem hún hrinti af stað eykur ekki líkur á að VG nái manni á þing.“
Samkvæmt síðustu fylgiskönnunum mælist VG með 3,7% fylgi og næði ekki manni á þing.
Össur og Svandís sátu saman í ríkisstjórn árin 2009 til 2013 þegar Jóhanna Sigurðardóttir var forsætisráðherra.