„Hugtakaruglingur“ hjá Svandísi

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í gær að það …
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í gær að það kæmi til greina að gera Sigurð Inga að forsætisráðherra í starfsstjórn. mbl.is/Arnþór

Ekki er hægt að mynda starfsstjórn með nýjum forsætisráðherra eins og Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur lagt til. Með því að leggja til að formaður Framsóknar verði forsætisráðherra er hún í raun að tala fyrir myndun nýrrar ríkisstjórnar sem fæli í sér aðra leið en myndun starfsstjórnar.

Þetta segir Haf­steinn Þór Hauks­son, dós­ent við laga­deild Há­skóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Hafsteinn segir að umræðan á undanförnum sólarhringum bendi til þess að fólk sé að rugla saman hugtökum á borð við þingrof og lausnarbeiðni forsætisráðherra.

Hvað er starfsstjórn?

Í kjarnyrtu máli segir hann að þingrof gangi út á það að forsætisráðherra stytti kjörtímabil Alþingis, en Alþingi er kjörið til fjögurra ára í senn, og flýti þannig kosningum.

Aftur á móti snýr lausnarbeiðni út á það að forsætisráðherra biðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt og þá tekur við starfsstjórn leidd af forsætisráðherra að beiðni forseta og situr þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð sem nýtur stuðnings meirihluta þingsins.

„Þetta tvennt er aðskilið og þarf ekkert að fara saman,“ segir Hafsteinn og útskýrir hvað starfsstjórn er.

„Starfsstjórn er í rauninni bara hugtak sem notað er yfir ríkisstjórn sem situr eftir að beðist hefur verið lausnar þangað til að ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Þetta gerist þá þannig að forsætisráðherra biðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt við forseta Íslands og forsetinn óskar eftir því að forsætisráðherra sitji áfram og leiði ríkisstjórn þangað til að ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Það er starfsstjórn,“ segir Hafsteinn.

Hafsteinn Þór Hauksson ræddi við mbl.is til þess að reyna …
Hafsteinn Þór Hauksson ræddi við mbl.is til þess að reyna leysa flækjuna. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Þetta er einhver hugtakaruglingur“

Svandís lagði í gær til þann möguleika að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, yrði forsætisráðherra í starfsstjórn.

Hafsteinn segir hins vegar að þá sé ekki lengur verið að ræða um starfsstjórn.

„Þetta er einhver hugtakaruglingur. Í fyrsta lagi vil ég nú segja það að ég held að það sé alveg fordæmalaust að ráðherrar í fráfarandi ríkisstjórn neiti að sitja í starfsstjórn. Það eru mjög sérkennilegar aðstæður, en auðvitað geta þær komið upp,“ segir Hafsteinn.

„Það er þá ekki hugmynd um starfsstjórn“

Hann útskýrir að aðstæðan væri önnur ef forsætisráðherrann sjálfur neitaði að sitja í starfsstjórn, þá þyrfti að grípa til annarra úrræða en myndun starfsstjórnar. Það séu þó óþarfa vangaveltur þar sem fyrir liggur að Bjarni sé tilbúinn að sitja í starfsstjórn eins og venja kveður á um.

„Hugmyndin um það að einhver annar taki við sem forsætisráðherra – nýtt ráðuneyti taki við – það er þá ekki hugmynd um starfsstjórn. Það er þá í raun bara hugmynd um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Það gæti alveg gerst að meirihluti þingsins kæmi sér einfaldlega saman um nýja ríkisstjórn,“ segir hann og útskýrir að það gæti verið meirihlutastjórn eða minnihlutastjórn.

„En það kæmi mér mjög á óvart í ljósi þess hversu skammt er til kosninga.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar. mbl.is/Hákon

Biðst lausnar í dag

Hann segir að ef einstakir ráðherrar í starfsstjórn neiti að sitja áfram þá verði væntanlega brugðist við því með því að skipta verkum innan stjórnarinnar.

Að hans mati hefði verið eðlilegast ef Bjarni hefði rofið þing og ríkisstjórnin hefði setið áfram sem meirihlutastjórn fram að kosningum. Bjarni hefði svo beðist lausnar eftir kosningar þegar stjórnin hefði misst umboð sitt.

Það er einmitt það sem Bjarni lagði til upphaflega þar til í ljós kom að Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, krafðist þess að Bjarni myndi biðjast lausnar. Til stendur að Bjarni fari á Bessastaði í dag og biðjist lausnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert