Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata segir ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur, formanns Vinstri grænna, að segja sig frá starfsstjórn bera vott um mikið frost á milli hennar og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.
„Ég held að þessi ákvörðun Svandísar beri vott um það mikla frost sem er á milli formanna Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins. Það ber einnig merki um hve ótrúlega illa Bjarni stóð að þessum stjórnarslitum,“ segir þingflokksformaðurinn í samtali við mbl.is.
Þórhildur segir Bjarna hafa komið Vinstri grænum og Framsókn í opna skjöldu með því að hafa farið á bak við flokkana þegar hann tilkynnti slit stjórnarsamstarfsins.
„Ég held að þetta sé eitthvað sem að Vinstri græn geta ekki hugsað sér að halda áfram með. Þetta er það sem ég ímynda mér, en ég get auðvitað ekki talað fyrir þau.“
Hún segir framgöngu Bjarna bera merki um óðagot og að hann sé í tilfinningalegu ójafnvægi:
„Vegna þess að það er fullkomið ábyrgðarleysi að vera ekki búið að taka eitt handtak til þess að fullvissa sig um að dæmið gangi upp áður en að hann stekkur svona af stað.
Að hafa ekki fyrir því að kanna hug fólks hvort það ætli með honum í meirihlutasamstarf fram að kosningum eða hvort það sé tilbúið að sitja í starfsstjórn eða hvað. Mér finnst þetta sýna algjöran skort á leiðtogahæfileikum hjá Bjarna Benediktssyni.“
Finnst þér þetta vera rétt ákvörðun hjá Svandísi, að segja skilið við starfsstjórnina?
„Þetta er auðvitað bara mjög skýr vantraustsyfirlýsing í garð Bjarna Benediktssonar.“
Að öðru leyti segir Þórhildur Sunna pírata á leið í prófkjör og á leið í kosningar 30. nóvember. Hún segir að á allra næstu dögum verði opnað fyrir framboð til prófkjörs, þá í kvöld eða fyrramálið, gangi allt eftir.
Hún segir prófkjörinu ljúka einhvern tímann í næstu viku, „ef að líkum lætur en ég stjórna þessu auðvitað ekki“.