Segir kennara hafa sagt upp vegna orða Einars

Kennarar sendu Einari Þorsteinssyni, borgarstjóra orðsendingar.
Kennarar sendu Einari Þorsteinssyni, borgarstjóra orðsendingar. Eggert Jóhannesson

Kristín Björnsdóttir, formaður Kennarafélags Reykjavíkur (KFR) segir að minnst 200 kennarar hafi farið í ráðhúsið um klukkan 14 til að mótmæla orðum Einars Þorsteinssonar borgarstjóra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna.

„Mér finnst einhvern veginn öll „statistic“ bara um skólana okkar benda til þess að við séum að gera eitthvað algjörlega vitlaust. Að kennararnir séu að biðja um það að fá að vera minna með börnum en eru samt veikari en nokkru sinni fyrr og kenna minna og fleiri einhverjir undirbúningstímar,“ voru orð Einars sem fóru öfugt ofan í kennara.

Íhuga hópuppsögn 

Kennarar útbjuggu spjöld með ýmsum frösum sem beindust að Einari.

Borgarstjórinn var hins vegar í Mexíkó og í fjarveru hans tók Dagur B. Eggertsson, forseti borgarstjórnar, á móti yfirlýsingu frá trúnaðarmönnum grunnskólakennara, stjórn Kennarafélags Reykjavíkur og stjórn 1. deildar félags leikskólakennara í Reykjavík.

„Það er mikil reiði í fólki. Kennarar eru mjög reiðir eftir ummæli Einars. Ég veit að margir hafa sagt upp nú þegar og aðrir sem eru að íhuga stöðu sína. Eins hef ég heimildir fyrir því að í einum skóla séu kennarar að íhuga hópuppsögn,“ segir Kristín.

Kristín Björnsdóttir
Kristín Björnsdóttir Ljósmynd/Aðsend

Fundur með Einari á fimmtudag 

Hún segir að eins hafi borist stuðningur frá kennurum utan Reykjavíkur. „Borgarstjóri verður að átta sig á því að Reykjavík er leiðandi og kennarar alls staðar að heyra það sem hann segir og hvernig hann talar um kennara. Þetta fór því mjög illa í kennara,“ segir Kristín. 

Að sögn hennar hefur kennurum verið boðinn fundur með Einari á fimmtudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert