Agnar Már Másson
Ráðherrar VG mæta á ríkisstjórnarfund á eftir, þrátt fyrir að hafa hafnað þátttöku í starfstjórn.
Sunna Valgerðardóttir, starfsmaður þingflokks VG, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Ríkisstjórnarfundur verður haldinn klukkan 16. Allir ráðherrar fengu fundarboð, m.a. ráðherrar úr röðum VG, að sögn forsætisráðuneytisins.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, varð í gær við lausnarbeiðni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og skipaði í kjölfarið starfsstjórn.
Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, lýsti því hins vegar yfir í gær að þingflokkur VG myndi ekki taka þátt í starfsstjórninni og ráðherrar flokksins yrðu frá og með deginum í dag almennir þingmenn.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki þekkja nein dæmi um það í lýðveldissögunni að flokkar eða einstakir ráðherrar hefðu neitað því að sitja í starfsstjórnum.