Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra sagðist ekki búast við miklum átökum á ríkisstjórnarfundinum áður en hann hófst klukkan 16 við Hverfisgötu.
Hún sagði að farið yrði yfir ýmis formsatriði sem skipta máli. Engin átök yrðu um það.
Þórdís Kolbrún greindi frá því í dag að hún ætli að gefa kost á sér í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Hingað til hefur hún verið þingmaður Norðvesturkjördæmis.
„Ég hef verið á lista í Norðausturkjördæmi allt frá árinu 2007, og ég hef verið þar með alls kyns hatta, neðarlega á lista og kosningastjóri og í ýmsum sætum á listanum. Það hefur verið mikill heiður að leiða þetta kjördæmi. Ég auðvitað er þarna fædd og uppalin og er sú sem ég er vegna þess.“
Þórdís sagðist myndu sakna fólksins sem vinnur fyrir flokkinn í kjördæminu.
„Þú hættir ekkert að vera Skagamaður og ég berst auðvitað almennt fyrir landið allt og hagsmuni þess á grundvelli Sjálfstæðisstefnunnar.“
Þórdís sagðist vonandi hafa áfram umboð til að sinna sínum störfum.
Spurð hvort hún sé tilbúin að leiða Sjálfstæðisflokkinn er Bjarni Benediktsson lætur af formennsku svaraði Þordís:
„Já, ég hef líka alveg verið skýr með það að ég er tilbúin til þess að leiða Sjálfstæðisflokkinn inn í framtíðina og trúi því að í Suðvesturkjördæmi, sem er langfjölmennasta kjördæmið, að þar geti ég gert gagn. Þannig að þetta eru sannarlega skilaboð um það líka, en maður tekur eitt skref í einu.“
Spurð aftur hvort hún sjá fyrir sér formannssætið þegar að því kemur sagðist Þordís Kolbrún hafa verið skýr með það að hún sé tilbúin í það verkefni.
„Það er auðvitað í höndum Sjálfstæðismanna að velja sér forystu á hverjum tíma.“
Hún sagði fókusinn hins vegar nú vera á komandi kosningar.
„Það skiptir máli að Sjálfstæðisflokknum gangi vel í því til þess að við getum hrint í framkvæmd því sem við brennum fyrir, og ekki eingöngu þau mál sem hafa hér verið til umræðu undanfarna daga vegna þess að við brennum auðvitað líka fyrir málum sem við höfum ekki getað haft pólitískt á dagskrá í þessu ríkisstjórnarsamstarfi.“
Hún sagði ráðherra Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins full færir um að halda utan um verkefni ríkisstjórnarinnar fram að kosningum.
„En þetta er auðvitað mjög óvenjulegt, eins og hefur komið fram, og ég tók ekki dæmi um þetta í stundakennslu í stjórnskipunarrétti. En þetta er svona og við bara vinnum út frá því, og það er bara eins og það er.“