Trúnaðarmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi munu að öllum líkindum kjósa í efstu fjögur sætin á lista flokksins. Jón Gunnarsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hafa bæði boðið sig fram í 2. sæti á listann.
Stjórn kjördæmisráðsins hefur lagt til að röðun verði viðhöfð við val á lista flokksins í kjördæminu og hún framkvæmd á einum degi, þ.e. á tveimur kjördæmisráðsfundum sem fram fara sunnudaginn í Valhöll.
Að öllum líkindum verður tillagan samþykkt.
Þórdís tilkynnti í gær að hún myndi sækjast eftir öðru sæti á listanum, en hún er núna oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi, en Jón tilkynnti fyrr í vikunni að hann myndi sækjast eftir 2. sæti, en hann er nú þegar í 2. sæti á listanum.
Ljóst er að mikið er í húfi ef tillaga kjördæmisráðs um röðun verður samþykkt og munu hundruð sjálfstæðismanna taka þátt í kosningunni.
Jón hefur verið alþingismaður Suðvesturkjördæmis síðan 2007 en á sama tíma er Þórdís varaformaður Sjálfstæðisflokksins með mikinn metnað til þess að verða formaður flokksins einn daginn.
Fleiri hafa tilkynnt um framboð neðar á lista en eflaust verða flest augu á baráttunni um 2. sæti.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri í komandi kosningum en hann var í 4. sæti á lista flokksins í síðustu kosningum.