Gunnar Axel baðst lausnar frá störfum

Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum.
Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum. Mynd/Sigurður Bogi

Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum, óskaði eftir lausn frá störfum á fundi bæjarráðs í dag. 

Víkurfréttir greina frá en þar segir að Gunnar hafi glímt við langtímaafleiðingar eftir Covid-19. Hann hefur verið í veikindaleyfi en stefndi að því að koma aftur til starfa síðustu mánaðamót.

„Tel ég það mikilvægara fyrir sveitarfélagið, fyrir samstarfsfólk mitt og bæjarbúa að það sé starfandi bæjarstjóri í sveitarfélaginu og að allri óvissu um hvort og þá hvenær ég muni geta snúið aftur til starfa verði eytt. Þess vegna óskaði ég eftir lausn frá störfum,“ segir Gunnar í samtali við Víkurfréttir. 

Heilsan og fjölskyldan í forgangi

Gunnar kveðst ekki vita hvað taki við í framhaldinu en hann segir að heilsan og fjölskyldan verði í forgangi.  

„Ég hef starfað á sviði sveitarstjórnarmála um langt árabil og bý að talsverði reynslu og þekkingu á sviði efnahagsmála og opinberra fjármála. Það er því ekki ólíklegt að ég muni taka að mér einhver verkefni tengd sveitarstjórnarmálum þegar þar að kemur en það á allt eftir að koma í ljós,“ er haft eftir Gunnari. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert