Stefán E. Stefánsson
Fylgi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs er í frjálsu falli. Flokkurinn mælist með 2,2%. Þetta sýnir ný könnun Prósents sem unnin er fyrir Morgunblaðið og mbl.is.
Þetta kemur fram í nýjasta þætti Spursmála á mbl.is. Þar fer Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra á Morgunblaðinu, yfir þessar nýjustu mælingar og hvað skýra kunni þær breytingar sem virðast birtast á fylgi flokkanna í öllu því gjörningaveðri sem nú gengur yfir stjórnmálasviðið í landinu.
Í sömu könnun má sjá að fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 15,6%.
Er flokkurinn með þessu næststærsti flokkur landsins, leiðir með sjónarmun gagnvart Miðflokki sem mælist með 15,1%. Tekið skal fram að munurinn milli flokkanna er vel innan skekkjumarka.
Sem fyrr er Samfylkingin stærsti flokkur landsins. Mælist stuðningur við hana 24,8%.
Píratar virðast hafa lent í talsverðum mótbyr og mælast nú með 6,1% fylgi. Velta má vöngum yfir því hvað veldur slöku gengi flokksins en að undanförnu hafa miklar innantökur verið í flokksstarfi Pírata og hver höndin risið mót annarri.
Þá nefnir Andrés í Spursmálum að það kunni að hafa haft áhrif að Jón Gnarr tilkynnti fyrir skemmstu aðh ann hygðist bjóða sig fram hjá Viðreisn en tölurnar nú sýna að sá flokkur mælist með ríflega 14% fylgi.
Framsóknarflokkurinn mælist með svipað fylgi og Píratar eða 6,2%. Flokkur fólksins er með 10,8% fylgi. Sósíalistar mælast enn undir 5% og eru með 4,2%. Lýðræðisflokkur Arnars Þórs Jónssonar sækir 0,9% stuðning samkvæmt þessari sömu könnun.