Fær greitt samkvæmt reglum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í viðtali við Stöð 2 …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í viðtali við Stöð 2 fyrir ríkisstjórnarfund í vikunni. mbl.is/Eyþór

„Ég hef fengið greitt, eins og allir aðrir þingmenn landsbyggðarkjördæmanna, samkvæmt reglum sem finna má í lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað.“

Þetta segir í Facebook-færslu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra vegna fréttar Vísis um húsnæðis- og dvalarkostnaðargreislur sem Þórdís hefur þegið. 

Í gærkvöldi birtist frétt á miðlinum þar sem greint var frá því að Þórdís hefur þegið samtals 13,8 milljón krónur frá árinu 2016. Hún er frá Akranesi og er þingmaður Norðvesturkjördæmis. Hún hefur hins vegar búið í Kópavogi síðastliðinn áratug.

Í vikunni greindi Þórdís Kolbrún frá því að hún ætli að gefa kost á sér í Suðvesturkjördæmi í komandi kosningum. 

Svaraði gagnrýni fyrir átta árum

Þórdís Kolbrún segir greiðslurnar koma til hvort sem þingmenn haldi heimili í kjördæminu eða ekki og eigi við um þá alla.

Séu þeir hins vegar skráðir með lögheimili í kjördæminu fá þeir hærri greiðslur en þetta.

„Það á ekki við um mig þar sem lögheimili mitt er í Kópavogi og hefur aldrei frá því ég settist á þing verið skráð annars staðar. Einmitt vegna þess að ég held ekki tvö heimili.“

Þá segist hún hafa svarað gagnrýni um að vera ekki með lögheimili í kjördæminu sínu fyrir átta árum; „Að rétt væri að greiða útsvar þar sem fjölskyldan þiggur þjónustu og rangt væri að þiggja hærri laun þegar ég ræki eitt heimili en ekki tvö.“

Lögbundið ekki valkvætt

„Þetta er lögbundið en ekki valkvætt. Þingmenn sem það fá rukka það ekki eða þiggja með sérstakri ákvörðun og geta ekki afþakkað það heldur samkvæmt upplýsingum sem ég fékk þegar ég spurðist fyrir um það á sínum tíma.“

Þórdís segir það „vissulega athyglisvert“ að Vísir hafi kosið að draga hennar nafn fram í þessu samhengi. Í fréttinni er þó einnig minnst á greiðslur sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jakob Frímann hafa þegið. 

Þá er vert að minnast á að DV birti fyrstur miðla frétt um greiðslurnar sem Þórdís Kolbrún hefur þegið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert