Í skanna og þurfa ekki að afklæðast

Lagt er til að tollgæslan geti leitað í farangri farþega …
Lagt er til að tollgæslan geti leitað í farangri farþega að þeim fjarstöddum en tilkynna skal um leitina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í frumvarpsdrögum fjármálaráðuneytisins, sem birt hafa verið í samráðsgátt, er lagt til að tollyfirvöldum verði heimilað að leita í innrituðum farangri farþega og áhafnar að viðkomandi fjarstöddum.

Einnig er lagt til að tollgæslan megi nota lágskammta röntgenskanna við nákvæma leit á farþegum að fengnu samþykki þeirra í stað þess að farþegar þurfi að afklæðast við leitina.

Verið neitað um aðgang að rafrænni vöktun

Enn fremur er í frumvarpinu kveðið á um að tollyfirvöld skuli fá aðgang að rafrænni vöktun og upptökum úr myndavélakerfum á svæðum þar sem viðhafa á tolleftirlit, en tekið er fram að mörg dæmi séu um að sveitarfélög og einkaaðilar neiti að veita tollinum aðgang að rafrænni vöktun á þessum svæðum.

Tillögurnar er að finna í drögum að bandormsfrumvarpi ráðuneytisins um ýmsar breytingar á sköttum, gjöldum og tollalögum o.fl. sem til stendur að lögfesta.

Setji kvittun í farangur

Samkvæmt núgildandi lögum ber að gefa farþegum og áhöfnum kost á að vera viðstaddir ef tollgæslan leitar í farangri þeirra.

Tilgangurinn með því að rýmka heimildina og heimila tollyfirvöldum að leita að viðkomandi fjarstöddum er sá að styrkja eftirlit og varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þetta verði heimilt ef það myndi leiða til óhóflegra tafa eða annarra erfiðleika að hann væri viðstaddur leitina.

„Tollgæslu ber að beita þessari heimild sinni til leitar af varúð og upplýsa viðkomandi um að leit hafi farið fram ef hann hefur ekki verið viðstaddur leitina. Ein leið til þess er að setja kvittun í farangur þar sem fram kemur að leit hafi farið fram og að lagaheimild sé fyrir leitinni,“ segir í skýringum með tillögunni.

Áhætta af flutningi reiðufjár

Bent er á að samkvæmt áhættumati ríkislögreglustjóra frá því í desember á síðasta ári sé áhættan af flutningi reiðufjár til og frá landinu metin mikil og í hæsta áhættuflokki, þar sem tollgæsluna skorti viðunandi lagaheimild til að framkvæma leit í innrituðum farangri. Með þessari tillögu sé brugðist við þessum ábendingum og jafnframt ábendingum í kjölfar úttektar alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka frá árinu 2018 varðandi skort á eftirliti með flutningi reiðufjár.

Næsta úttekt vinnuhópsins verður gerð á árinu 2026 og því er talið aðkallandi að lögfesta þetta ákvæði um leit í farangri áður en hún fer fram.

Inngripið farþegum þungbært

Tilgangurinn með því að bjóða farþegum sem eiga að gangast undir nákvæma leit upp á að fara í lágskammta röntgenskanna er meðal annars sagður sá að bæta og straumlínulaga eftirlitið „þegar upp vaknar grunur um mögulegt innvortis smygl hjá farþega við komu til landsins eða við brottför frá landinu. Tími tolleftirlitsskoðunar mun styttast verulega, bæði farþegum og tollgæslunni til hagsbóta auk þess sem boðið er upp á möguleika sem lágmarkar óþægindi farþega sem sæta eftirliti,“ segir í skýringum.

Ef farþeginn samþykkir þetta gengur hann í gegnum hlið með röntgengeislun. Tækið tekur einfaldar röntgenmyndir af beinagrind og innri rýmum líkamans, eins og það er orðað.

Tekið er fram að ekki sé um að ræða skanna eins og notaðir eru í auknum mæli við öryggiseftirlit á flugvöllum sem sýna útlínur líkamans og hluti undir fötum og ekki sé heldur um að ræða röntgenvél, tölvusneiðmyndavél eða MR-tæki eins og notuð eru á sjúkrahúsum.

Tækið verður staðsett í sérstöku stjórnherbergi á Keflavíkurflugvelli og tekið er fram að myndir frá skannanum verði ekki vistaðar.

Tollgæslan hefur í framkvæmd gert greinarmun á almennri leit og nákvæmari leit við eftirlitið. Við nákvæma leit þarf farþegi að afklæðast en almenn leit á sér stað utan klæða.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert