Þórólfur Guðnason, fyrrum sóttvarnalæknir, segist ekki ætla að fylgja á eftir Víði Reynissyni, sviðsstjóra almannavarna, og Ölmu Möller landlækni og bjóða sig fram í alþingiskosningunum sem verða í lok næsta mánaðar.
Víðir staðfesti fyrr í kvöld að til standi að hann muni leiða lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
Alma gefur kost á sér til þess að leiða lista sama flokks í Suðvesturkjördæmi.
„Nei nei. Þetta er ekkert fyrir mig. Þetta er ekkert sem hentar mér,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is í kvöld, spurður hvort hann hafi áhuga á að fara á þing.
„Þetta er bara flott að þau séu að bjóða sig fram og mikill styrkur fyrir Samfylkinguna,“ segir hann.
Eins og kunnugt er mynduðu þau Þórólfur, Víðir og Alma þríeykið svokallaða í heimsfaraldrinum. Er því nú ljóst að þríeykið mun ekki setjast á þing saman í heild sinni – í þetta skiptið að minnsta kosti.
Þórólfur segir það eiga eftir að koma í ljós hvort að hann muni kjósa Samfylkinguna 30. nóvember.
„Ég er í kjördæmi Ölmu sýnist mér. Ég á eftir að heyra hvað flokkarnir hafa fram á að færa og á eftir að taka mína ákvörðun,“ segir hann.