„Ég hef auðvitað fylgst líka með Miðflokksmönnum sem hafa verið auðvitað duglegir – þessir tveir þingmenn – á þessu kjörtímabili. Og þeir hafa – held ég að við getum öll verið sammála um – það að þeir hafa haldið uppi sjónarmiðum sem að hafa verið í samræmi við mín sjónarmið í mörgum málum,“ svaraði Sigríður Á. Andersen spurð á Sprengisandi af hverju hún er gengin til liðs við Miðflokkinn.
Sigríður sagði að er falast var eftir því í upphafi þessari viku að hún hugleiddi þann möguleika að leiða annan hvorn lista Miðflokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna fannst henni hún verða að gera það.
„Og komist að þeirri niðurstöðu að það væri tilefni til þess að reyna vinna þessum sjónarmiðum frekara fylgis, og þar væri Miðflokkurinn heppilegur vettvangur eins og staðan er í dag.“
Sigríður sagði hugmyndina um að hún gangi til liðs við Miðflokkinn ekki vera nýja af nálinni.
„Á þessu kjörtímabili hafa menn auðvitað margir komið að máli við mig og hvatt mig til þess að gera það og það hefur aldrei komið til greina að minni hálfu, fyrr en akkúrat núna.“
Hún sagðist hafa fylgst með stjórnmálunum frá því að hún hvarf af þingi árið 2021, bæði í störfum sínum sem lögmaður og af einskærum áhuga á þjóðmálunum.
Sigríður sagði skoðanir sínar ekki hafa breyst í áranna rás og sagðist hafa orðið vör við miklum áhuga á hennar sjónarmiðum.
Sigríður sagði auðvitað mikið koma til til þess að hún snúi baki við Sjálfstæðisflokknum, en hún gekk til liðs við flokkinn 15 ára gömul.
Hún sagði hvorki vinskap hennar við Sjálfstæðismenn eiga eftir að breytast né áhuga á flokknum sem slíkum. Þá viðurkenndi hún að flokkurinn væri ekki sú breiðfylking sem hann var áður.
Sigríður sagði að eftir að hún tók ákvörðunina um að ganga til liðs við Miðflokkinn þá varð ákvörðunin um að segja skilið við Sjálfstæðisflokkinn ekki erfið.
Spurð hvort það væru ákveðnir málaflokkar sem leiddu til þessarar sinnaskipta sagðist Sigríður ekki líta þannig á málið.
„Það er kannski ekki rétt að líta á það þannig að það séu einhver mál sérstaklega í fari Sjálfstæðisflokksins sem að ýta mér einhvern veginn yfir landamærin. Ég er ekki að flýja Sjálfstæðisflokkinn. Ég er miklu frekar að líta á þetta sem tækifæri til að fjölga málsvörum tiltekinna sjónarmiða á þinginu. Sjónarmiða sem hafa komið fram hjá Miðflokknum að mínu mati með hvað skýrustum hætti.“
Í gær var greint frá því að Snorri Másson fjölmiðlamaður sækist einnig eftir því að leiða lista Miðflokksins í Reykjavík.