Þekkt andlit: „Ekki endilega góð þróun fyrir lýðræðið“

Eiríkur Bergmann segir það geta brugðið til beggja vona hjá …
Eiríkur Bergmann segir það geta brugðið til beggja vona hjá flokkum að stilla þekktum andlitum upp í forystusætin. mbl.is/Kristófer Liljar

Töluvert mikið hefur borið á því fyrir komandi alþingiskosningar að flokkar eru að sækja fólk fyrir utan raðir flokksmanna og stilla upp í efstu sæti á lista. Það er þó er ekki endilega góð þróun fyrir lýðræðið að mati prófessors í stjórnmálafræði.

Þó tilgangurinn sé að styrkja lista með þekktum andlitum, sé ekki víst að það skili jákvæðum árangri. Slíkt útspil gæti mögulega komið í bakið á flokkum í einhverjum tilfellum.

„Hin hefðbundna leið er að fólk starfi í stjórnmálaflokkum og komist síðan í aðstöðu til að bjóða sig fram til forystu á þingi eða sveitarfélögum. Það virðist aðeins hafa verið á undanhaldi. Og í þessu tilviki er verið að sækja fólk fyrir utan hina hefðbundnu flokkssveit,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, í samtali við mbl.is, spurður út í þessa þróun.

Þekkt fyrir annað en fá efstu sæti

Má þar til að mynda nefna Víði Reynisson, sviðsstjóra almannavarna, sem boðið var að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, og Ölmu Möller landlækni, sem hefur gefið kost á sér í oddvitasæti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Þórunn Sveinbjarnardóttur, sitjandi þingmaður, hefur þó einnig gefið kost á sér í sama sæti. 

Þá mun Halla Hrund Logadóttir, fyrrverandi orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi, leiða lista Framsóknar í Suðurkjördæmi og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, tekur annað sætið. Fjölmiðlamaðurinn Snorri Másson vill fá að leiða Miðflokkinn í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna, en í samtali við mbl.is í gær sagði Snorri að hann hefði tekið þessa ákvörðun eftir þreifingar á milli hans og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins.

Lýðræðislegt starf flokka mikilvægt

Eiríkur segir það umhugsunarvert að verið sé að sækja töluvert margt fólk á lista sem ekki hafi tekið þátt í lýðræðislegu starfi stjórnmálaflokka.

„Lýðræðislegt starf í stjórnmálaflokkum skiptir gríðarlega miklu máli. Þetta er oft talað niður, að fólk sé að raða stólum og fái svo bitlinga, sem er algjörlega röng sýn á mikilvægi flokksstarfs. Lýðræði snýst ekki bara um að kjósa á fjögurra ára fresti til Alþingis heldur snýst það líka um það lýðræðislega starf sem á sér stað á ýmsum öðrum vettvangi, meðal annars innan stjórnmálaflokkanna. Ef það er ekki leiðin að þingsæti þá er það í sjálfu sér ekki endilega góð þróun fyrir lýðræðið. Þarna þarf að vera eitthvað jafnvægi og það er því heldur ekki gott að það fari á hina hliðina.“

Skýringuna á því af hverju þetta er að gerast núna telur Eiríkur vera hvernig kosningar bar að og hve aðdragandi þeirra er stuttur. Tíminn fram að kosningum sé það knappur að langflestir flokkar stilli upp á lista í stað þess að fara í prófkjör.

„Þá er verið að stökkva til að sækja þekkt nöfn sem kjósendur kannast við og vilja kannski veita brautargengi. Það er dálítið það sem við erum að sjá núna.“

„Hugrakkt og eftirtektarvert“

Það er jafnvel þannig, að oddvitar leggja sig að veði til að veita þekktum einstaklingi brautargengi, líkt og á sér stað hjá Framsókn í Suðurkjördæmi. Eiríkur segir það mjög vogað af Sigurði Inga að taka annað sæti á listanum en styðja Höllu Hrund í það fyrsta.

„Þetta er frekar stórmannleg gjörð hjá honum. Hann er að setja þingsetu sína og þar með formennsku í flokknum algjörlega undir, í veðmáli sem er allavega jafn líklegt að hann tapi og vinni,“ segir Eiríkur, en samkvæmt nýrri könnun Prósents, sem unnin var fyrir Morgunblaðið í síðustu viku, mældist Framsókn aðeins með 6,2 prósent fylgi.

„Miðað við stöðuna núna er ekki hægt að segja að það sé líklegra að þetta gangi upp hjá honum heldur en að það geri það ekki. Hann gerir þetta til þess að reyna að snúa þeirri stöðu við. Þetta er hugrakkt og eftirtektarvert.“

Viss áhætta hjá Samfylkingunni

Spurður hvaða áhrif þetta hafi á kjósendur, hvort flokkar nái að að laða til sín kjósendur sem annars hefðu ekki kosið flokkana, segir Eiríkur það vissulega tilganginn. Verið sé að reyna að styrkja lista með því að fá á þá þekkt andlit. En hvort það skili jákvæðum árangri sé ekkert endilega víst.

„Svo hefur það ýmis áhrif, það á eftir að koma í ljós hvort til dæmis Samfylkingin njóti þess að tveir þriðju af þríeykinu svokallaða séu komin í þeirra raðir. Þar með er Samfylkingin auðvitað að leggja blessun sína á þær aðgerðir sem farið var í að sínum tíma en uppgjörið við þær aðgerðir er eftir. Maður sér að það er aðeins að byrja að fara af stað og það er ekkert víst að það uppgjör verði stjórnvöldum mjög jákvætt. Það allavega liggur ekki ljóst fyrir. Þannig það er viss áhætta fólgin í þessu.“

„Stórmerkileg vending“

Hvað Miðflokkinn varðar, með að fá til sín unga þekkta karlmenn eins og Anton Svein Mckee, sundkappa og ólympíufara, sem var kjörinn formaður ungliðahreyfingar Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi í haust, og Snorra Másson fjölmiðlamann, segir Eiríkur það í takt við stefnu flokksins að fá til sín slíka einstaklinga

Anton hefur þó sagt að hann gefi kost á sér á lista flokksins í næstu kosningum en hann hefur sagt að hann stefni á þing.

„Miðflokkurinn er flokkur sem hefur stillt sér upp íhaldsmegin í félagslegu samhengi. Hann leggur áherslu á þjóðerni og stendur gegn hugmyndum um fjölmenningarsamfélag og svo framvegis. Í andstöðu við sum frjálslyndari gildi þjóðfélagsins, er þetta ekki bara í takt við það?“

Þá segir Eiríkur það stórfrétt að Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins,  hafi gengið til liðs við Miðflokkinn.

„Það er auðvitað stórmerkileg vending, en kemur kannski ekkert á óvart miðað við það hvernig hún hefur talað að undanförnu. Eigi síður er það mjög merkilegt að uppalinn Sjálfstæðismaður eins og hún, rótgróinn Sjálfstæðismaður, þingmaður og ráðherra flokksins, gangi til liðs við Miðflokkinn. Það lýsir auðvitað þeirri þróun sem hefur verið í gangi. Miðflokkurinn hefur verið að taka svona íhaldsfylgið að mörgu leyti af Sjálfstæðisflokknum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert