Ráðherrar Vinstri grænna eiga rétt á þriggja til sex mánaða biðlaunum, eftir að þeir fengu formlega lausn frá ráðherraembættum sínum á fundi ríkisráðs á fimmtudag. Biðlaunin eru jafnhá ráðherralaunum.
Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 88/1995 á ráðherra rétt á biðlaunum úr ríkissjóði er hann lætur af embætti. Biðlaunin ná aðeins til ráðherrahluta launanna en ráðherrar Vinstri grænna eru nú almennir þingmenn og fá því þingfararkaup. Ráðherra sem hefur starfað sem ráðherra skemur en eitt ár fær greidd biðlaun í þrjá mánuði en eftir ráðherrastörf í eitt ár samfellt eða lengur eru þau greidd í sex mánuði.
Svandís Svavarsdóttir, fyrrv. iðnaðarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fyrrv. félags og vinnumarkaðsráðherra, eiga rétt á sex mánaða biðlaunum en þau hafa setið á ráðherrastól frá árinu 2017. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, fyrrv. matvælaráðherra, á hins vegar rétt á þriggja mánaða biðlaunum en hún varð ráðherra í apríl á þessu ári. Ekki náðist í Svandísi og Guðmund Inga við vinnslu fréttarinnar og er því ekki ljóst hvort þau hyggist nýta sér biðlaunin. Bjarkey sagðist hins vegar ekki hafa hugsað um það hvort hún hygðist nýta sér þau.