„Ég er aðeins að jafna mig á spennufallinu en tilfinningin er samt mjög góð. Ég er mjög þakklát fyrir umboðið sem ég hlaut,“ segir Lenya Rún Taha Karim, oddviti Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður í komandi kosningum, í samtali við mbl.is.
Prófkjöri Pírata lauk fyrr í dag og hafa nú framboðslistar flokksins í öllum kjördæmum verið kynntir.
Lenya hafnaði í 1. sæti í prófkjöri Pírata í Reykjavík og skákaði þremur sitjandi þingmönnum, en sjálf er hún varaþingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. Hún segir að niðurstaðan hafi komið á óvart en að hún sé mjög þakklát.
Lenya tilkynnti ákvörðun sína um að bjóða sig fram í forystusæti á miðvikudag síðustu viku.
Átti þessi ákvörðun sér langan aðdraganda?
„Ég var alveg búin að hugsa þetta í smá tíma. Ég var búinn að hugsa fyrst og fremst hvort ég ætti að halda áfram eða ekki og ég er alveg búin að taka mér gott ár í það að komast að einhverri niðurstöðu,“ segir Lenya.
Hún segir að þegar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafi óskað eftir þingrofi þá hafi henni byrjað að berast skilaboð frá fólki sem hvatti hana til þess að halda áfram.
„Mér fannst bara upplagt að bjóða mig fram og bjóða mig fram í fyrsta sæti þannig að ég gæti haft áhrif á það hvernig stefna Pírata væri í þessum kosningum,“ segir Lenya og heldur áfram.
„Ég er búinn að vera að keyra á því að fara aftur í rætur Pírata. Fara aftur í frelsismálin. Fara aftur í frjálslyndi, beina lýðræðið, borgararéttindi og gagnsæi. Við þurfum að samtvinna þessi kjarnagildi Pírata við áherslumálin og mál flokkanna sem brenna á fólki í dag.“
Aðspurð um stöðu sína innan flokksins sem formaður Ungra pírata og hvort að staða hennar muni breytast í kjölfar nýjustu vendinga segist oddvitinn þurfa að taka stöðuna á morgun og sjá til hvort hún leggi það starf aðeins til hliðar.
„Við erum náttúrulega með varaformann sem er mjög hæfur til þess að halda áfram með það sem ég hef verið að gera hjá Ungum pírötum. Ég held að það sé mjög mikil vinna við það að vera oddviti í kjördæmi í Alþingiskosningum,“ segir Lenya.
„Ég veit ekki alveg hvað tekur við akkúrat núna. Ég veit bara að það tekur við rosalega öflug kosningabarátta sem kannski kallar á aðkomu Ungra pírata. Ég þarf bara aðeins að taka stöðuna á morgun,“ bætir hún enn fremur við.
Þá upplýsir hún blaðamann mbl.is um að hún muni leiða Reykjavíkurkjördæmi norður og að næstu skref séu nú að koma sér saman með kosningastjórn flokksins og öðrum oddvitum flokksins til að leggja línur fyrir komandi kosningar.