„Frægt fólk getur líka gert mikið gagn“

Bjarni Benediktsson, forætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, forætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að vélar Sjálfstæðisflokksins séu komnar á fleygiferð í aðdraganda þingkosninganna sem fara fram laugardaginn 30. nóvember.

„Það er mjög gleðilegt að finna kraftinn í flokknum við svona aðstæður. Við vorum með mjög stór og flott kjördæmisþing víða um landið um síðustu helgi og vorum að raða í efstu sæti í öllum kjördæmum utan Reykjavíkur. Ég heyri og finn að það er kominn endurnýjaður kraftur í flokksmenn og mikill baráttuhugur,“ segir Bjarni við mbl.is.

Brynjar Níelsson, samherji Bjarna í Sjálfstæðisflokknum, lét hafa eftir sér í viðtali í Pallborðinu á Stöð 2 í gær að það sé ekki góð þróun að flokkarnir séu að drösla frægu fólki á lista sína. Spurður út í þessi ummæli segir Bjarni:

„Það verður hver að syngja þetta með sínu nefi. Ég vona bara að kjósendur láti sig að mestu varða málefnin og það sem fólk stendur fyrir en ekki hvort það hafi orðið kannski frægt í einhverju samhengi. En frægt fólk getur líka gert mikið gagn ef það er með góðar hugmyndir,“ segir Bjarni.

Snýst um hugmyndafræðina og stefnumálin

Hann segist ekkert hafa á móti því að þeir sem eru þekktir í samfélaginu vilji gefa kost á sér til þess að vinna gagn fyrir þjóðina.

„Þegar allt kemur til alls þá er það hugmyndafræðin og stefnumálin sem þetta á að snúast um. Ég er ánægður með að hafa fengið í bland áframhaldandi umboð fyrir marga öfluga stjórmálamenn í Sjálfstæðisflokkinn og nýja. Það eru að koma reynsluboltar í norðvestur- og norðaustur kjördæmi sem hafa mikla reynslu á sveitarstjórnarstiginu og atvinnulífinu og við munum leggja áherslu á málefnin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert