„Ég hef bara verið handtekinn á Íslandi“

„Ég upplifi íslensku þjóðina sem mína þjóð, fólkið hér er …
„Ég upplifi íslensku þjóðina sem mína þjóð, fólkið hér er mjög hlýtt og ég hef ekki upplifað annað eins í nokkru landi sem er erlent ríki fyrir mér,“ segir Naji Assar sem ræðir við vegfarendur í Reykjavík um Palestínu. Ljósmynd/Aðsend

„Ég heiti Naji Assar og ég er búinn að vera í Evrópu núna í fimm ár,“ segir 29 ára gamall Palestínumaður í samtali við mbl.is sem ber téð nafn og hefur vakið athygli í miðborg Reykjavíkur undanfarið þar sem hann gefur sig á tal við vegfarendur – Íslendinga sem erlenda ferðamenn – og leggur fyrir þá spurningar á meðan hann gerir myndskeið af samtali þeirra.

Myndskeiðin setur hann á samfélagsmiðilinn TikTok og eðlilega mælist það misjafnlega fyrir hjá fólki að ókunnugur maður gangi upp að því með símaupptöku í gangi og spyrji það hvort því finnist að Palestínumenn eigi að geta um frjálst höfuð strokið, „Do you think Palestinian people have the right to be free?“ spyr Assar á ensku svo ekkert fari hér milli mála né týnist í þýðingu sem kallað er.

Því næst spyr hann viðmælendur sína hvort þeir séu tilbúnir að segja „Frelsum Palestínu“ eða „Frjáls Palestína“, hér gerir enskan „Free Palestine“ ekki greinarmun á sögninni að frelsa og lýsingarorðinu frjáls. Efnislega skiptir það þó tæplega máli í því samtali við Assar sem hér fer á eftir.

„Ég fékk nú bara sekt“

„Ég reyni bara mitt besta til að haga lífi mínu rétt,“ heldur Assar samtalinu áfram en hann hefur starfað sem öryggisvörður í Hagkaupum, en gerir ekki lengur, auk þess að leggja stund á viðskiptafræðinám og leggja á ráðin um rekstur sem hann dreymir um að stunda. „Ég hef aldrei setið í fangelsi á ævinni og ég hef bara verið handtekinn á Íslandi,“ segir Palestínumaðurinn hispurslaust og blaðamaður spyr nánar.

„Það var fyrir að reyna að stöðva þjóðarmorð og reyna að gera heiminn að betri stað án stríðs,“ segir hann með slíkri hægð að tilraunin til að stöðva þjóðarmorð hljómar sem einhver mun hversdagslegri athöfn. Assar ítrekar að þetta hafi verið í fyrsta og eina skiptið sem laganna verðir einhvers staðar í heiminum hafi handtekið hann.

„Ég fékk nú bara sekt,“ svarar hann aðspurður um málalok og kveðst hafa þurft að verja einhverjum klukkustundum á íslenskri lögreglustöð í kjölfar mótmæla í miðbæ Reykjavíkur. Djöfullegri lögreglustöðvar finnast í heiminum – og viðskotaverri lögregluþjónar, það getur sá sem hér skrifar sjálfur vottað.

Góð sagnfræði og vond

„Mig langar til að kenna Íslendingum góða sagnfræði, ekki vonda sagnfræði. Íslenska ríkisstjórnin styður þjóðarmorð sem er að eiga sér stað í Palestínu. Ef ríkisstjórnin hér beitti viðskiptabanni gagnvart Ísrael, eins og hún gerði gagnvart Rússlandi, þyrfti ekki að halda hér neinar mótmælasamkomur,“ segir Assar sem kveðst aðspurður þó ekki hafa komið til Íslands í þessum tilgangi.

Assar kom til Íslands vegna þess að það er að …
Assar kom til Íslands vegna þess að það er að hans sögn land friðar. Hér er enginn her, bendir hann á, en hann hefur starfað sem öryggisvörður í Hagkaupum og dreymir um eigin rekstur. Ljósmynd/Aðsend

„Ég kom til Íslands vegna þess að það er land friðar, hér er enginn her. Ég reyni að bæta líf mitt, en engu að síður dreymir mig um að snúa til baka til heimalands míns þegar það verður mögulegt,“ segir Palestínumaðurinn sem gefið hefur sig á tal við fjölda manns á götum Reykjavíkur með það fyrir augum að leiða almenningi fyrir sjónir að heimaland hans og þjóð verðskuldi frelsi.

Segðu mér aðeins frá því hvernig þessi samtöl þín við almenning hófust og hvað býr þar að baki.

„Já, ég skal gera það. Ég velti því ekkert fyrir hvaðan fólk kemur eða hvernig það lítur út. Ég sé bara fólk og ég spyr það hvort því finnist eðlilegt að Palestína sé frjáls og bið það að segja „Free Palestine“. Við reynum að minna fólk á að þjóðarmorð stendur yfir allan sólarhringinn í Palestínu og núna er liðið heilt ár frá því þetta stríð hófst þótt það hafi staðið mun lengur, það hefur staðið í 76 ár,“ segir Assar og vísar til upphafs stríðs þá nýstofnaðs Ísraelsríkis og arabískra grannríkja.

Aðferðafræði viðtala

Kveðst hann viðhafa vissa aðferðafræði í samtölum sínum. „Ég heilsa öllum kurteislega og spyr fólk hvort ég megi ræða við það, ég spyr hvort hægt sé að skella skolleyrum við eða færast undan að svara spurningum á sviði mannúðarmála,“ útskýrir Assar. Ekki hafa þó allar hans samræður endað eins og lagt var upp með eins og sjá má hér.

View this post on Instagram

A post shared by Naji Assar (@naji_asar95)

Segir hann venjulegt friðelskandi fólk ekki hika við að segja honum að það styðji frið í Palestínu. „Þarna er fólk einfaldlega að ávarpa þjóð sem sætt hefur hernámi í 76 ár og sætir nú þjóðarmorði,“ heldur hann áfram.

Hver erum við, eruð þið hópur?

„Já já, við erum úti um allt, við erum með fólk í Kanada, Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar sem ræðir við fólk á götunni um þjóðarmorðið sem við viljum stöðva. Við viljum bara hafa frið, en ég bendi líka á að þegar ég segi „við“ vísar það til þess að allt góðhjartað fólk finnur til með Palestínu,“ svarar hann og fær í staðinn þungavigtarspurningu um hvernig fólk taki honum þegar hann gefur sig á tal við það. Hvort einhverjir reiðist ekki eða fyrtist við, hringi jafnvel á lögregluna.

Assar við utanríkisráðuneytið á Rauðarárstíg. Hann gagnrýnir íslensk stjórnvöld fyrir …
Assar við utanríkisráðuneytið á Rauðarárstíg. Hann gagnrýnir íslensk stjórnvöld fyrir að beita Ísraela ekki viðskiptabanni eins og Rússa. Ljósmynd/Aðsend

„Langflestir eru gott fólk sem brosir og er sammála mér. Þannig eru flestir. Aðrir bregðast öðruvísi við og eru kannski ekki sammála, en í raun snýst þetta bara um eitt – að hætt sé að drepa börn. Við viljum bara stöðva stríð, ef við getum stöðvað stríð getum við stöðvað allt sem við viljum,“ svarar Palestínumaðurinn um hæl og kveðst ekki vita til þess að nokkur hafi kallað lögreglu honum til höfuðs.

Hins vegar hafi hann fengið íslenska lögreglumenn til að fara með slagorðið „Free Palestine“. „En það vildu þeir ekki gera í mynd, bara með hljóðupptöku,“ segir Assar með aðkenningu að hlátri.

Hér má sjá þýskan kennara bregðast illa við ávarpi Assars og kom til nokkurra orðahnippinga.

View this post on Instagram

A post shared by Naji Assar (@naji_asar95)

Fær það óþvegið inn á milli

Hefur fólk hreytt einhverjum ónotum í þig á götunni?

„Já já, það gerist en mér er alveg sama. Heima hjá mér er verið að fremja þjóðarmorð og ég reyni bara að vera rólegur. Það sem skiptir okkur máli er að fólk tali við okkur augliti til auglitis, ekki gegnum sjónvarpsskjá eða fjölmiðla, fólk þarf að tala saman, það er það sem er mikilvægt þó að við auðvitað bendum bæði á hópinn okkar á netinu, Palestine News Network, og setjum samtöl okkar við fólk á samfélagsmiðla á borð við Instagram og TikTok, en það eru þó upptökur af samtölum sem áttu sér stað án allra milliliða.“

Finnst þér þú fá ólík viðbrögð frá Íslendingum annars vegar og erlendum ferðamönnum hins vegar?

„Ég upplifi íslensku þjóðina sem mína þjóð,“ svarar Assar, „fólkið hér er mjög hlýtt og ég hef ekki upplifað annað eins í nokkru landi sem er erlent ríki fyrir mér,“ segir hann enn fremur en veit þó að hans tími mun koma og hann snúa aftur til sinnar fósturjarðar.

Þakkir til Íslendinga

„Hernáminu þarf að ljúka,“ heldur Assar áfram og vísar til hersetu Ísraelsmanna á hinum svonefndu hernumdu svæðum sem Ísrael lagði undir sig í stríðinu sem hófst árið 1967. „Palestína er ekki bara fyrir Palestínumenn, við eigum ekki í neinum vandræðum með að búa með kristnum mönnum eða gyðingum, allir sem eiga sér hlýju í hjarta geta búið þar, Jesús fæddist í Palestínu,“ bendir Assar á máli sínu til stuðnings og við komum að lokum þessa spjalls.

„Ég vil bara að lokum færa Íslendingum þakkir fyrir að hafa veitt mér stuðning og tekið vel á móti mér í þeirri viðleitni minni að stöðva stríðið og þjóðarmorðið. Ég vona að allur heimurinn sé tilbúinn að leggjast á árarnar með mér,“ segir hinn palestínski Naji Assar að lokum sem ver degi sínum í að ræða við fólk á götum Reykjavíkur – uppátæki sem flestir taka að hans sögn vel, aðrir ekki.

Hér má sjá samskipti Assars við manninn á götunni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert