Kunnugleg andlit munu skipa flest oddvitasæti á listum Samfylkingarinnar í komandi kosningum en í vikunni verða listar flokksins loksins kynntir. Harðasta samkeppnin um oddvitasæti er í Norðvesturkjördæmi þar sem fjórir sækjast eftir forystusæti.
Flokkurinn hefur enn ekki kynnt lista sína formlega en þó hafa nokkrir flokksfélagar lýst yfir áhuga sínum á að leiða í hinu eða þessu kjördæmi.
Kosningastjóri Samfylkingarinnar sagði við mbl.is í gær að gera mætti ráð fyrir því að listar flokksins í Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi verði kynntir á morgun, fimmtudagskvöld.
Þó væri hugsanlegt að listinn í Norðvesturkjördæmi verði kynntur á föstudagskvöld. Listarnir í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi yrðu kynntir á laugardag en þó þykir nær ljóst hverjir muni skipa efstu sætin þar.
Valgarður Lyngdal Jónsson kennari leiddi listann í Norðvesturkjördæmi í fyrra og hann segist í samtali við mbl.is nú sækjast eftir 1.-2. sæti.
Það gerir Hannes Sigurbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ), einnig.
Þá hefur Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðar, líka ákveðið að gefa kost á sér til þess að leiða lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.
Gylfi Þór Gylfason, lögregluvarðstjóri á Ísafirði, hefur einnig tilkynnt að hann sækist eftir efstu tveimur sætunum, samkvæmt umfjöllun Bæjarins besta.
Sem fyrr segir liggur niðurstaða í Norðvesturkjördæmi líklega fyrir á morgun.
Logi Einarsson, fyrrverandi formaður, hefur lýst því yfir að hann sækist eftir því að halda oddvitasæti sínu í kjördæminu.
Ekki er vitað til þess að fleiri sækist eftir 1. sæti í kjördæminu.
Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri, hefur verið orðuð við framboð en hún blés á þá orðróma þegar mbl.is sló á þráðinn hjá henni í dag. „Ég er ekki á leiðinni í framboð,“ sagði Hilda áður en blaðamaður gat spurt.
Uppstillingarnefnd Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi hefur lagt til að Alma Möller landlæknir leiði listann, að því er fram kom í tölvupósti sem nefndin sendi flokksmönnum í kjördæminu.
Þá muni Guðmundur Ari Sigurjónsson, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, skipa 2. sæti.
Hefur reynsluboltinn Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður og fyrrverandi umhverfisráðherra, ákveðið að víkja úr oddvitasæti og færa sig í 3. sætið í kjördæminu.
Margir hafa sótt um að vera á lista í Suðurkjördæmi. Allir þingmenn Samfylkingarinnar í kjördæminu hafa sagst ætla að bjóða sig fram að nýju að undanskildri Oddnýju Harðardóttur.
En það þýðir að oddvitasætið er laust og Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, er talinn líklegastur til leiða Samfylkinguna þar í komandi kosningum.
Hann hefur verið tilnefndur af uppstillingarnefnd en enn er óljóst hvort kjördæmisráð sé búið að staðfesta uppstillinguna.
Gera má fastlega ráð fyrir því að Kristrún Frostadóttir formaður leiði lista Samfylkingarinnar í öðru Reykjavíkurkjördæminu en hún er nú oddviti í Reykjavíkurkjördæmi suður.
Jóhann Páll Jóhannsson er oddviti í Reykjavíkurkjördæmi norður og þykir hann því einnig líklegasti oddvitinn.
Aftur á móti hefur Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og fyrrverandi borgarstjóri, verið orðaður við framboð og hefur hann sjálfur ekki útilokað það.
Samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir Morgunblaðið mælist Samfylkingin með um 22% fylgi í Reykjavík suður og ríflega 30% fylgi í Reykjavík norður. Flokkurinn er því sá eini sem mælist með yfir 30% í nokkru kjördæmi.
Þórður Snær Júlíusson hætti fyrir nokkrum vikum sem ritstjóri á Heimildinni og sagðist ætla að taka þátt í flokksstarfi Samfylkingarinnar. Ekki er vitað hvort hann sækist eftir sæti á lista Samfylkingarinnar.