Gáttuð á hegðun Kristrúnar gagnvart Degi

Dóra Björt Guðjóns­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Pírata, og Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi …
Dóra Björt Guðjóns­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Pírata, og Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri og formaður borgarráðs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dóra Björt Guðjóns­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Pírata, er gáttuð á hegðun Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar.

Einkaskilaboð frá Kristrúnu til kjósanda um Dag B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóra, hafa vakið mikla athygli.

„Mér finnst þetta afhjúpa ótrúlega takmarkaðan skilning á vægi Dags til lengri tíma við mótun borgarinnar, dýpt hans þekkingar á stjórnmálunum og málefnunum og getu til að halda utan um flókið samstarf,“ skrifar Dóra í færslu á facebook en hún hefur starfað með Degi í meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur í nokkur ár.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spyr hvort búið sé að blinda Kristrúnu

Kristrún sagði í skilaboðum að Dagur væri aukaleikari, ekki aðalleikari, og að hann yrði ekki ráðherra ef Samfylkingin kæmist í ríkisstjórn. Þar að auki sagði Kristrún viðkomandi að strika Dag út í kjörklefanum ef honum hugnaðist hann ekki.

„Það er hreinlega synd að búið sé að taka fyrir að Dagur verði ráðherra í komandi ríkisstjórn sem og sóun á hans hæfileikum og tapað tækifæri fyrir Samfylkinguna og samfélagið okkar,“ skrifar Dóra og bætir við:

„Er áróður Sjálfstæðisflokksins gegn einum allra áhrifamesta pólitíkusi Samfylkingarinnar fyrr og síðar búinn að blinda formann flokksins?“

Skilaboð Kristrúnar til kjósanda í heild sinni:

„Ég er formaður flokks­ins og stýri mál­efna­áhersl­um með stjórn flokks­ins, Dag­ur verður óbreytt­ur þingmaður, ekki ráðherra, hann sit­ur ekki í stjórn flokks­ins og mun ekki sitja í rík­is­stjórn. Í stór­um breiðum flokki sem S er og þarf að vera til að leiða raun­veru­lega breyt­ing­ar velj­ast alltaf inn ein­hverj­ir ein­stak­ling­ar sem kjós­end­ur hafa skipt­ar skip­an­ir á [skoðanir]. Þannig hef­ur lýðræðið alltaf virkað,“ skrif­ar Kristrún og held­ur áfram.

„En ég skil vel sjón­ar­mið fólks sem vill ekki hafa hann og ef þú býrð og kýst í Reykja­vík norður þar sem ég er odd­viti og hann er í öðru sæti þá ligg­ur bein­ast við að strika hann út í kjör­klef­an­um. Ég bið þig að líta á heild­ar­mynd­ina, áhersl­urn­ar sem ég hef bar­ist fyr­ir und­an­far­in ár í hús­næðis, efna­hags og heil­brigðismál­um. Auðlinda­mál­um.“

„Það eru áhersl­urn­ar sem munu ein­kenna í S í rík­is­stjórn, ekki hvað borg­in hef­ur gert. Dag­ur stýr­ir ekki S, ég geri það. Hann þarf að fylgja for­yst­unni. Við erum í dauðafæri til að leiða raun­veru­leg­ar breyt­ing­ar í sam­fé­lag­inu. Við meg­um ekki láta einn mann úti­loka það - hann er auka­leik­ari, ekki aðal, í þessu verk­efni,“ skrif­ar hún og held­ur áfram:

„Staða hans á list­an­um breyt­ir engu um áhersl­ur S og þýðir ekki að ég sé samþykk öllu sem borg­in hef­ur gert. Það hef­ur orðið gíf­ur­leg end­ur­nýj­un á list­um S heilt yfir! Nú reyn­ir á okk­ur í S að sýna og sanna hvar við stönd­um og við séum trausts­ins verð á næstu vik­um. Hvet þig til að fylgj­ast með og gefa þessu tæki­færi.“

Fyrri hluti skilaboðanna.
Fyrri hluti skilaboðanna. Skjáskot
Hér má sjá seinni hluta skilaboðanna.
Hér má sjá seinni hluta skilaboðanna. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert