Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hjólar í Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra og starfandi matvælaráðherra, fyrir að skipa Jón Gunnarsson sérstakan fulltrúa í matvælaráðuneytinu. Hann segir Bjarna greinilega ekki vita mikið um „stjórnskipulegar venjur og hefðir um starfsstjórnir“.
Þetta segir Össur í færslu á Facebook.
Össur segir að Jón hafi gert sig líklegan til þess að ganga í Miðflokkinn og þá hafi forysta Sjálfstæðisflokksins gripið „til þess örþrifaráðs að kasta öllum stjórnskipulegum venjum og leikreglum fyrir róða í þágu flokkshagsmuna“.
Hann lýsir Jóni sem eins konar „kommisar“ í ráðuneytinu.
„Búið var til nýtt embætti eins konar kommissars yfir matvælaráðuneytinu. Bak við luktar dyr var svo gerður díll við Jón Gunnarsson um að hann fengi að valsa þar og gramsa eins og honum sýndist - gegn því að yfirgefa ekki flokkinn.“
Hann segir Jón ætla að breyta stefnu ráðuneytisins í fjölda mála og segir það ganga gegn því sem eigi að tíðkast í starfsstjórnum.
„Bergnuminn af nýju valdi fannst nýja kommissarnum það tilvalið að uppfylla friðarskyldu starfsstjórnarinnar með því að lýsa yfir strax á fyrsta degi að hann hygðist við fyrsta tækifæri gefa út framvirkt leyfi til hvalveiða! En eins og þjóð veit hafa pólitískar stórstyrjaldir staðið um hvalveiðar árum saman hér á landi. Engum dylst, og allra síst Jóni, að slík ákvörðun mun án nokkurs vafa skapa bæði úlfúð og illdeilur innan og utan þings,“ skrifar Össur.
Hann segir að ástæðan fyrir því „að Bjarni hljóp frá eigin túlkun á eðli starfsstjórna“ hafi verið „svo hægt væri að gera skítadíl við Jón Gunnarsson“ og þar með koma í veg fyrir meira fylgistap.
„Þegar ríkisstjórnin var knúin til að biðjast lausnar talaði Björn Bjarnason frændi Bjarna af nokkru yfirlæti um Svandísi Svavarsdóttur og hæddi hana fyrir að vita ekki bofs um starfsstjórnir. En nú blasir við að Bjarni er kominn í sama tossabekkinn. Hann virðist ekki heldur vita neitt lengur um stjórnskipulegar venjur og hefðir um starfsstjórnir.“