Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, er aukaleikari að mati Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, samkvæmt skilaboðum sem hún sendi á kjósanda. Dagur stýrir ekki Samfylkingunni heldur gerir Kristrún það og þá mun Dagur ekki verða ráðherra. Það liggur beinast við fyrir viðkomandi að strika Dag út í kjörklefanum ef honum hugnast hann ekki.
Þetta kemur fram í skilaboðum sem Kristrún sendi á kjósanda sem birti svo skjáskotin á Facebook-hóp íbúa Grafarvogs. Heimildir mbl.is herma að skilaboðin séu ófölsuð.
mbl.is greindi frá fyrri hluta skilaboðanna fyrr í kvöld en nú verður farið yfir skilaboðin í heild sinni.
„Ég er formaður flokksins og stýri málefnaáherslum með stjórn flokksins, Dagur verður óbreyttur þingmaður, ekki ráðherra, hann situr ekki í stjórn flokksins og mun ekki sitja í ríkisstjórn,“ skrifar Kristrún.
Hún tekur fram að í stórum og breiðum flokki sem vilji leiða fram raunverulegar breytingar þá veljist alltaf inn einstaklingar sem kjósendur hafa skiptar skoðanir á. Þannig hafi lýðræðið alltaf virkað.
„En ég skil vel sjónarmið fólks sem vill ekki hafa hann og ef þú býrð og kýst í Reykjavík norður þar sem ég er oddviti og hann er í öðru sæti þá liggur beinast við að strika hann út í kjörklefanum. Ég bið þig að líta á heildarmyndina, áherslurnar sem ég hef barist fyrir undanfarin ár í húsnæðis, efnahags og heilbrigðismálum. Auðlindamálum,“ skrifar Kristrún.
Hún segir að þetta séu áherslurnar sem muni einkenna Samfylkinguna í ríkisstjórn, ekki hvað borgin hafi gert.
„Dagur stýrir ekki S, ég geri það. Hann þarf að fylgja forystunni. Við erum í dauðafæri til að leiða raunverulegar breytingar í samfélaginu. Við megum ekki láta einn mann útiloka það - hann er aukaleikari, ekki aðal, í þessu verkefni,“ skrifar hún og heldur áfram:
„Staða hans á listanum breytir engu um áherslur S og þýðir ekki að ég sé samþykk öllu sem borgin hefur gert. Það hefur orðið gífurleg endurnýjun á listum S heilt yfir! Nú reynir á okkur í S að sýna og sanna hvar við stöndum og við séum traustsins verð á næstu vikum. Hvet þig til að fylgjast með og gefa þessu tækifæri.“
Ekki náðist í Kristrúnu né Dag við gerð fréttarinnar.