„Ég hef brennandi áhuga á þessu ennþá“

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég fékk bara fullt af áskorunum um að koma aftur og ég hugsaði með mér af hverju ekki? Ég hef brennandi áhuga á þessu ennþá.“

Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson sem er nú stiginn aftur inn á svið stjórnmálanna eftir yfir þriggja ára fjarveru en hann skipar annað sæti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Í samtali við mbl.is segir Gunnar það hafa verið gott að hverfa af vettvangi stjórnmálanna og víkka sjóndeildarhringinn.

Hefur hann til að mynda náð sér í meistaragráðu frá Bifröst og starfaði sem ráðgjafi í verkefnum á Íslandi sem og erlendis en kemur nú endurnærður til baka í stjórnmálin.

Verið að bjóða upp á meira af því sama

Nú þegar þú ert kominn til baka þá er kannski vert að spyrja, hvað finnst þér um stjórnmálaumhverfið núna og hvernig vendingar hafa verið síðustu misseri?

„Þetta er náttúrulega búið að vera mjög skrautlegt og einkennast af óstöðugleika og miklum vonbrigðum eiginlega verð ég að segja,“ segir Gunnar og nefnir að sú staðreynd að geta vonandi breytt einhverju hafi ýtt undir endurkomu hans í stjórnmálin.

„Við sjáum bara fram á að það er verið að bjóða okkur, í flestum flokkum, upp á meira af því sama. Það er engin breyting hjá Sjálfstæðisflokknum, til dæmis á stjórn hans eða forystu. Svipað hjá Framsókn og fleirum.“

Segir hann Miðflokkinn finna fyrir því að fólk kalli eftir breytingum og nefnir hann að formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi það orð á sér að þora að breyta til.

„[...] og það er það sem við ætlum að gera.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert