Guðlaugur segir valkostina vera skýra

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður, kveðst vera mjög ánægður með að fá Brynjar Níelsson til að halda áfram í 3. sæti á lista flokksins í kjördæminu.

Hann segir að í komandi kosningabaráttu verði mikil hugmyndabarátta en valkostirnir þó skýrir. Frelsi, ráðdeild og ábyrgð með Sjálfstæðisflokknum eða vinstristjórn í anda Reykjavíkurmeirihlutans.

„Við sem búum í Reykjavík vitum alveg hvernig er þegar vinstri öflin eru í meirihluta. Við finnum voðalega fyrir því og það liggur fyrir að ef við náum ekki árangri þá munu þessi öfl taka yfir landsstjórnina. Það er alveg skýrt. Ég held að tíðindi síðustu sólarhringa sýni að vinstriflokkarnir vilja fela þetta, en þetta er svona,“ segir Guðlaugur í samtali við mbl.is.

Verður brekka

Fram­boðslist­ar sjálf­stæðismanna í Reykja­vík voru kynnt­ir í Þrótt­ar­heim­il­inu í dag. Brynj­ar skipar 3. sæti á listanum rétt eins og í síðustu kosningum.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn fékk tvo menn kjörna í kjör­dæm­inu og varð Brynjar því varaþingmaður en hann sagði þó af sér varaþing­mennsku í síðasta mánuði.

„Auðvitað vitum við að þetta er brekka en það er gríðarlegur styrkur að hafa Brynjar á listanum. Vegna hans starfa og framgöngu þá hefur hann verið í eftirspurn um allt land og ég var mjög ánægður að hann féllst á það að vera með okkur. Markmiðið er auðvitað að koma honum inn og ég hef fulla trú á því að við munum vinna á í kosningabaráttunni,“ segir Guðlaugur.

Ánægður með Diljá og Huldu

Hann segir einnig gífurlegan liðsstyrk vera fólginn í því að vera með viðskiptafræðinginn Huldu Bjarnadóttur í 4. sæti og Diljá Mist Einarsdóttur þingmann í 2. sæti.

„Ég held að enginn hefði getað séð það fyrir að þessi manneskja skyldi ná þeirri stöðu sem hún er með á jafn skömmum tíma,“ segir hann um Diljá.

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, leiðir lista Sjálf­stæðis­flokks­ins í Reykja­vík suður, Hild­ur Sverr­is­dótt­ir þingflokksformaður skip­ar 2. sæti og 3. sæti skip­ar Jón Pét­ur Zimsen, aðstoðarskóla­stjóri Rétt­ar­holts­skóla.

Sjálfstæðisflokkurinn eins og hann á að vera

Guðlaugur segir báða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vera gríðarlega öfluga og að það sé einkennandi fyrir listana að á þeim sé fólk úr öllum hverfum, á öllum aldri og úr öllum stéttum.

„Þetta er Sjálfstæðisflokkurinn eins og hann á að vera. Það er að segja stétt með stétt.“

Hann telur að málefni Reykjavíkur verði mun ofar í huga fólks í komandi kosningum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert