Verkfall kennara í níu skólum er hafið. Kennarar í fjórum skólum til viðbótar munu leggja niður störf í nóvember verði samningar ekki í höfn fyrir þann tíma.
Greint hefur verið frá því að fundi samningsnefndar Kennarasambands Íslands (KÍ), ríkisins og sveitarfélaga hafi lokið fyrr í kvöld án árangurs.
Þá sagði Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að boðað hefði verið til vinnufunda á morgun og á miðvikudaginn en ekki sé búið að boða til næsta samningafundar.
Eru kröfur Kennarasambands Íslands að laun kennara verði sambærileg sérfræðingum á almennum vinnumarkaði eða um ein milljón króna.