Viðbúnaður lögreglunnar er mikill í miðbæ Reykjavíkur vegna leiðtogafundar Norðurlandaráðs og komu Volodimírs Selenskís, forseta Úkraínu, hingað til lands.
Ljósmyndari mbl.is var á ferðinni í morgun og smellti myndum af vopnuðum lögreglumönnum sem standa vörð, m.a. við Ráðhús Reykjavíkur og Alþingi.
Þingið fer fram á Alþingi og í Ráðhúsinu undir yfirskriftinni „Friður og öryggi á norðurslóðum“ og verður Ráðhúsið lokað almenningi næstu daga.
Í miðbænum er Vonarstræti lokað milli Lækjargötu og Suðurgötu. Templarasund og Kirkjustræti frá Pósthússtræti eru einnig lokuð, auk Tjarnargötu á milli Vonarstrætis og Kirkjustrætis.