Foreldrum sagt að heimanám væri verkfallsbrot

Stjórn foreldrafélagsins segir að jafnræðis hafi ekki verið gætt.
Stjórn foreldrafélagsins segir að jafnræðis hafi ekki verið gætt. mbl.is/Sigurður Bogi

Stjórn foreldrafélags Lundarskóla á Akureyri, þar sem kennarar eru í verkfalli, óskar eftir rökstuðningi Kennarasambands Íslands (KÍ) fyrir því af hverju það sé talið verkfallsbrot að börn sinni heimanámi í verkfalli. 

Einnig er óskað eftir rökstuðningi fyrir því frá skólanum og KÍ af hverju nemendum sumra bekkja var meinað að taka með sér skólabækur heim í verkfalli á meðan nemendur í öðrum bekkjum voru hvattir til að taka bækurnar með sér heim. Telur stjórnin að jafnræðis hafi ekki verið gætt.

Lundarskóli er einn þriggja grunnskóla á landinu þar sem kennarar eru í tímabundnu verkfalli. Verkföll standa nú yfir í samtals níu skólum, en til viðbótar við grunnskólana þrjá eru tímabundin verkföll í einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla og ótímabundin verkföll í fjórum leikskólum. Aðgerðir hafa verið boðaðar í samtals þrettán skólum.

Ekki samræmi í upplýsingagjöf

Stjórn foreldrafélagsins segist hafa fengið margar ábendingar um misræmi varðandi aðgengi að námsgögnum meðan á verkfalli stendur.

„Nemendum sumra bekkja var algjörlega meinað að taka með sér námsgögn heim degi fyrir verkfall. Var þeim og foreldrum tilkynnt að það væri verkfallsbrot að nemendur tækju með sér skólabækur heim. Í sumum bekkjum fengu foreldrar sem sóttust eftir því að taka námsgögn með heim og í öðrum bekkjum voru nemendur hreinlega hvattir til að taka skólabækur með sér heim degi fyrir verkfall. Þar af leiðandi teljum við að hvorki hafi verið samræmi í upplýsingagjöf til nemenda og foreldra né hvað varðar aðgengi að skólabókum,“ segir í bréfi stjórnarinnar til KÍ.

Jafnt aðgengi ekki verið tryggt

Tekið er fram að foreldrafélagið styðji kjarabaráttu kennara heilshugar og lýst er yfir ánægju með starfsfólk skólans. 

„Hinsvegar teljum við að ekki hafi verið tryggt jafnt aðgengi nemenda að skólabókum í verkfalli. Samkvæmt grunnskólalögum ber sveitarfélögum að tryggja jafnan rétt nemenda til náms. Sömu lög kveða einnig á um að foreldrar og skólar beri ábyrgð á námi barna. Teljum við það vera lögfesta skyldu okkar sem foreldra að styðja börn okkar í námi og tryggja jafnan rétt þeirra til náms.“

Vilja heildstætt mat á áhrifum verkfalls

Stjórn félagsins hvetur sveitarfélög þar sem skólar eru í verkfalli til að tryggja að öll börn í hafi jafnan aðgang að skólabókum. Til dæmis með því að bjóða foreldrum nemenda þeirra skóla að sækja námsgögn sem þeir telja börn sín þurfa þar til verkfalli lýkur.

Í bréfinu er einnig vitnað í yfirlýsingu umboðsmanns barna frá því í gær þar sem meðal annars kom fram að mikilvægt væri að leggja mat á þau áhrif sem verkfallið hafi á nemendur svo hægt verði að grípa til mótvægisaðgerða með það að markmiði að tryggja réttindi þeirra.

„Teljum við að jafnrétti nemenda og jafn réttur til aðgengis að skólagögnum sé þáttur í ofangreindu mati og þannig mikilvæg mótvægisaðgerð til að tryggja jöfn réttindi allra þeirra barna sem verkfallsaðgerðir hafa áhrif á. Einnig förum við fram á að heildstætt mat verði gert á þeim áhrifum sem verkfallið kann að hafa á þá nemendur sem verða af rétti sínum til menntunar,“ segir í bréfi stjórnarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert