Píratar myndu vilja þrepaskipta fjármagnstekjuskatt og hækka hann í efstu þrepum, samkvæmt ósamþykktri tillögu að kosningastefnu sem var kynnt í kosningakerfi flokksins í dag.
Þar er einnig lögð til atkvæðagreiðsla um Evrópusambandsaðild og upptaka „stöðugri gjaldmiðils“ t.d. evrunnar. Flokkurinn myndi einnig vilja innleiða nýju stjórnarskrána og draga úr skattaafsláttum til ferðaþjónustunnar.
Atkvæðagreiðsla um þessa kosningastefnu, sem stefnu- og málefnanefnd flokksins leggja til, hefst í dag og lýkur atkvæðagreiðslu annað kvöld. Stefnan hefur því ekki verið samþykkt en tillagan er alls 56 blaðsíður og kennir þar ýmissa grasa.
Samkvæmt tillögunum vilja Píratar setja takmörk á Airbnb-starfsemi í landinu. Auk þess kveða tillögurnar á um að skylda lífeyrissjóði til að fjármagna þriðjung af húsnæðisþörf og setja kvaðir um að öll sveitarfélög bjóði upp á ákveðið lágmark af félagslegu húsnæði.
Samkvæmt síðustu könnun sem Prósent framkvæmdi fyrir Morgunblaðið mælast Píratar með 4,9% fylgi og mælast því að meðaltali rétt fyrir utan þingsþröskuldinn.
Samkvæmt tillögunni myndi flokkurinn einnig vilja auka aðhald með opinberu valdi og peningavaldi og auka styrki til óháðra fjölmiðla m.a. með sérstökum rannsóknarsjóðum fyrir fjölmiðlafólk til þess að stunda rannsóknarblaðamennsku.
Þá vilja Píratar efla stofnanir sem hafa eftirlit með hagsmunum almennings, svo sem Samkeppniseftirlitið og Umboðsmann Alþingis, og koma á fót sérstakri stofnun sem rannsakar spillingu til að taka hana föstum tökum.
Auk þess er lagt til að aðskilja eftirlit með störfum lögreglu frá framkvæmdarvaldinu og efla fræðslu gagnvart almenningi um réttindi sín í réttarríki.
[Kosningastjórn Pírata] leggur einnig til nýja stofnun, Lögréttu, sem myndi veita ráðgefandi álit á því hvort lagafrumvörp standist stjórnarskrá og samræmist þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins.
Lagt er til að fjármagnstekjuskattur verði þrepaskiptur með tilliti til tegundar fjármagnstekna auk þess sem flokkurinn vill „slá á þensluna þar sem hún er mest með því að hækka skatta á háar fjármagnstekjur og draga úr þeim skattaafslætti sem ferðaþjónustan býr við“.
Þá vilja þeir setja skorður á ófyrirsjáanleg lánakjör eins og breytilega vexti og verðtryggingu og leyfa þjóðinni að kjósa um Evrópusambandsaðild.
„Með upptöku stöðugri gjaldmiðils verður hagstjórnin agaðri. Það getum við gert með því að binda krónuna við annan eða aðra gjaldmiðla eða einfaldlega með því að taka upp annan gjaldmiðil eins og evruna,“ segir í tillögunni,
Flokkurinn vill einnig ráðast í sérstakt átak í byggingu íbúða fyrir fatlað fólk til að vinna á löngum biðlistum eftir viðeigandi íbúðarhúsnæði. Flokkurinn vill „[v]inna með rekstraraðilum að nauðsynlegri aðlögun atvinnuhúsnæðis svo þátttaka fatlaðs fólks á vinnumarkaði eða í samfélaginu í heild strandi ekki á aðgengi.
Aukinheldur eigi að endurskoða tollakerfið með hagsmuni neytenda í fyrirrúmi. Ákvarðanir um fjár- og efnahagsmál og hvernig skuli leysa þjónustu hins opinbera skuli byggja á gögnum um hvað sé hagkvæmast og best fyrir almenning hverju sinni, „í stað þess að takmarkast af hægri-vinstri kreddum“.
Þá segir einnig að flokkurinn muni fjármagna gott heilbrigðiskerfi með sérstakri áherslu á geðheilbrigðismál. Það kemur aftur á móti ekki fram í þeim lið hvernig þær aðgerðir verði fjármagnaðar en bent er þó á að fjölmörg tækifæri séu til að „tæknivæða og straumlínulaga heilbrigðisþjónustuna“.
Þá hyggst flokkurinn uppfæra menntakerfið í samstarfi við fagfólk og styðja betur við kennara og skóla til þess að kenna börnum með annað móðurmál en íslensku.
Þá eigi að setja á fót auðlindagjald fyrir hagnýtingu á sameiginlegum auðlindum, vinna gegn skattasniðgöngu stórfyrirtækja með því að taka betur á þunnri eiginfjármögnun og taka á lóðréttri samþættingu í sjávarútvegi með því að aðskilja veiðar og vinnslu.
Stór hluti stefnutillögunnar hverfur um umhverfis- og loftslagsmál en samkvæmt þeim áherslum vill flokkurinn halda þjóðfund á hverju kjörtímabili til að finna lausnir í baráttunni gegn loftslagsvandanum.
Einnig eru lagðar til breytingar á samgöngukerfinu, t.d. með því að stórefla Strætó strax. Koma á fót landsbyggðastrætó sem virkar og flýta Borgarlínu eins og kostur er.
Auk þess segir flokkurinn réttindi hinsegin fólks vera í fyrsta sæti. Þau vilja m.a. styrkja löggjöf um hatursorðræðu og regluverk í kringum hatursglæpi og banna öll ónauðsynleg inngrip í líkama intersex barna.
Samkvæmt tillögunni myndi flokkurinn beita sér fyrir því að frjósemisfrelsi kvenna og kvára verði tryggt í stjórnarskrá. Þá vildi flokkurinn einnig brúa launamun kynjanna með því að leiðrétta „kerfisbundið vanmat á kvennastörfum“.
Þá vildi flokkurinn auka stuðning við fólk á flótta og lækka kostnað við móttöku þess á Íslandi með því að leyfa því að vinna meðan umsókn þeirra er til meðferðar og með því að „straumlínulaga umsóknarferlið til að auka skilvirkni“.
Hér er aðeins farið yfir brot af því sem fram kemur í kosningastefnunni sem hefur enn ekki verið samþykkt. Lesa má stefnuna í heild sinni á kosningavef Pírata.