Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, telur að skatta á Íslandi megi ekki lækka fyrr en þeim skilyrðum sé fullnægt að ríkið sé fullfjármagnað.
Þetta kom fram í máli hennar á kosningafundi Viðskiptaráðs sem haldinn var í Hörpu í morgun. Þar ræddi forystufólk stjórnmálaflokkanna efnahagsmál auk annarra málaflokka sem varða bæði atvinnulífið og samfélagið í heild. Eitt af þeim málum sem voru til umræðu voru skattar.
„Það þarf að nýta skattkerfið til þess að jafna kjör. Það á að létta byrðunum á þeim sem eru efnaminnstir í samfélaginu á kostnað þeirra sem eru ríkir,“ sagði Svandís.
Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, sagði Pírata vilja létta byrðunum á þeim sem minna mega sín. Á meðan geti þeir sem eru með breiðari bök tekið virkari þátt í því að fjármagna ríkisreksturinn.
„Við höfum talað fyrir þrepaskiptum fjármagnsskatti og við höfum líka talað fyrir því að virðisaukaskatturinn ætti í auknum mæli að fara til nærsamfélagsins þar sem verið er að borga fyrir þjónustu og vörur og þannig tryggja betri fjármögnun til sveitarfélaga,“ sagði Gísli Rafn.
Til að kortleggja stefnu flokkanna lagði Viðskiptaráð kosningakönnun fyrir flokkana sem innihélt sextíu fullyrðingar. Fimm svarmöguleikar voru fyrir hverja fullyrðingu; mjög fylgjandi, frekar fylgjandi, hlutlaus, frekar andvíg og mjög andvíg.
Jafnframt gafst flokkunum færi á að láta skýringu fylgja hverju svari.
Flokkur fólksins hefur sagst vilja lækka tryggingargjaldið.
Var Ragnar Þór Ingólfsson, frambjóðandi flokksins í Reykjavík, spurður um skattamálin á fundinum.
„Okkur finnst að það eigi að skoða að lækka tryggingargjaldið á lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru fyrir í erfiðri stöðu á fákeppnismarkaði. Þá höfum við lagt til að hækka bankaskattinn. Þegar bankaskatturinn var lækkaður árið 2020 þá hækkuðu þjónustugjöldin og útibúum var lokað,“ sagði Ragnar.
Hann sagði að arðsemi bankanna hafi aukist og í ljósi þess sem þeir séu að skila í hreinum vaxtatekjum og þjónustugjöldum, sem eru 145 milljarðar, þá þurfi að skoða það sérstaklega að hækka bankaskattinn.