Full ástæða til að skoða niðurfellingu námslána

Svandís segir fyrir liggja að mönnun heilbrigðisþjónustu verði áskorun á …
Svandís segir fyrir liggja að mönnun heilbrigðisþjónustu verði áskorun á næstu árum. Brýnt sé að ná heilbrigðisstarfsfólki aftur heim úr námi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs,  segir flokkinn ætla að beita sér fyrir því að fá ungt heilbrigðisstarfsfólk aftur heim til Íslands að námi loknu.

„Við vitum að ein stærsta áskorunin á næstu árum og áratugum er mönnun heilbrigðisþjónustunnar og það er afar mikilvægt að samfélagið njóti krafta þeirra sem leggja stund á heilbrigðisvísindi, hvaða nafni sem þau nefnast,“ segir Svandís í samtali við mbl.is.

VG kynnti kosningaáherslur sínar í dag.

Beita hvötum og bæta kerfin

„Þá teljum við vera fulla ástæðu til að skoða það alvarlega að beita hvötum eins og niðurfellingu og endurgreiðslu námslána,“ segir Svandís.

Hún segir námslánakerfið þó ekki einu hindrun ungs fólks sem sæki nám erlendis í að koma heim heldur séu fleiri kerfi á borð við fæðingarorlofskerfið sem leggi stein í götu ungra nemenda.

Hún hafi lagt fram þingsályktunartillögu á dögunum sem snúist um nákvæmlega þetta. Þar sé lagt til að viðeigandi ráðherrum verði falið að gera úttekt á annars vegar þessum kerfislegu hindrunum sem mæta ungu fjölskyldufólki eftir nám erlendis þegar það hyggur á heimkomu og hins vegar möguleika á að beita einhvers konar hvötum.

Félagsleg nálgun

Hyggst flokkurinn einnig beita sér fyrir leigubremsu á húsnæðismarkaði sem Svandís segir mikilvægan lið í að verja leigjendur fyrir leiguhækkunum.

VG vilji binda í lög með hvaða hætti og á hvaða forsendum sé leyfilegt að hækka leigu.

„Okkur langar að fókusinn fari meira á hvað tekur við og hvaða framtíðarsýn við höfum. Okkar áherslur snúast um þessa félagslegu nálgun á samfélagi og uppbyggingu þess. Jafna kjör, verja kvenfrelsi, halda utan um náttúruvernd og friðarstefnu,“ segir Svandís að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Birgir Örn Guðjónsson: VG
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert