65 fyrirtæki með 11,1 milljarð í skattafrádrátt

Linda Jónsdóttir og Tryggvi Þorgeirsson stýra Sidekick Health, en Hilmar …
Linda Jónsdóttir og Tryggvi Þorgeirsson stýra Sidekick Health, en Hilmar Veigar Pétursson hefur stýrt CCP um áraskeið. Bæði fyrirtækin eru meðal þeirra sem fá hæstan skattafrádrátt vegna þróunar- og rannsóknarkostnaðar.

Tölvuleikjafyrirtækið CCP fær hæstu upphæðina í ár í sérstakan skattafrádrátt vegna nýsköpunar, eða samtals tæplega 449 milljónir í gegnum félögin CCP ehf. og CCP Platform ehf. Fékk fyrra félagið 275 milljónir og hið síðara 174 milljónir.

Þau félög sem fengu hæstu upphæðina í stöku félagi voru hins vegar Nox Medical, EpiEndo Pharmaceuticals og SidekickHealth sem öll fengu 385 milljónir í sérstakan skattafrádrátt.

Þetta er meðal þess sem lesa má úr nýjum tölum sem Skatturinn birti nýlega um skattafrádráttinn, en hann er veittur vegna rannsókna og þróunar.

Aðeins eru birtar upplýsingar um þær endurgreiðslur sem nema um 500 þúsund evrum eða meira, eða sem nemur um 78 milljónum á gengi dagsins í dag. Eru upplýsingar birtar um endurgreiðslur til samtals 65 fyrirtækja upp á 11,08 milljarða, en sjá má heildarlistann hér í grafinu fyrir neðan.

Endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar hafa aukist mikið undanfarin ár, en árið 2017 fóru samtals 2,8 milljarðar í endurgreiðslur. Voru lögin útvíkkuð árið 2020 og hlutföll af kostnaði hækkuð í 35% fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og 275 milljónir fyrir stór fyrirtæki, en lögin áttu að renna út nú um áramótin en voru framlengd að mestu óbreytt. Samkvæmt fjárlögum í ár nemur heildarupphæð skattafrádráttarins í ár 16,6 milljörðum.

Nokkur fyrirtæki um og yfir milljarð á síðustu þremur árum

Þetta er sjötta árið í röð sem CCP fær mesta skattafrádráttinn, en á þeim tíma hefur það verið gert í gegnum fyrrnefndu félögin tvö. Samtals nemur skattafrádrátturinn sem bæði CCP félögin hafa fengið síðustu þrjú árin 1,5 milljarði.

Þegar horft er til þeirra félaga sem hafa fengið mestu endurgreiðsluna síðustu þrjú árin eru það:

  1. SidekickHealth: 1.070 m
  2. EpiEnda Pharmaceuticals: 1.066 m
  3. Coripharma: 1.044 m
  4. Nox Medical: 951 m
  5. Controlant: 910 m
  6. Össur Iceland: 800 m
  7. CCP ehf.: 800 m (og CCP Platform með 699 m til viðbótar, samtals 1.499 m)
  8. Alvotech: 800 m
  9. LS Retail: 791 m
  10. Marel Iceland: 762 m

Sjö önnur fyrirtæki hafa fengið yfir hálfan milljarð í skattafrádrátt á síðustu þremur árum.

Hætti starfsemi en fékk 252 milljónir í ár

Þegar horft er til hástökkvara ársins trónir þar efst á lista kolefnisbindingarfyrirtækið Running tide, en félagið fékk 252 milljónir í ár í skattafrádrátt. Hafði félagið ekki verið á lista í fyrra. Fyrirtækið hætti starfsemi hér á landi um mitt ár, en stuttu áður hafði Heimildin fjallað um kolefnisbindingu fyrirtækisins og sagt það vera falska syndaaflausn.

Þá fékk fyrirtækið NetApp Iceland 235 milljónir í skattafrádrátt og var heldur ekki á lista í fyrra.

Landeldi ehf., sem var meðal þeirra fyrirtækja sem fengu hæstu einstöku endurgreiðsluna í fyrra, eða 350 milljónir, nær núna ekki inn á lista yfir efstu fyrirtækin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert