Æfing í janúar sem líkir eftir rofnum sæstrengjum

Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður CERT-IS netöryggisveit Fjarskiptastofu , segir æfingu …
Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður CERT-IS netöryggisveit Fjarskiptastofu , segir æfingu verða haldna í janúar. Samsett mynd

Netöryggissveit Fjarskiptastofu mun ásamt almannavörnum halda æfingu snemma á næsta ári þar sem líkt verður eftir því ástandi sem kunni að skapast ef klippt verður á alla þrjá sæstrengina sem tengja Ísland við Evrópu.

Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður CERT-IS, netöryggisveitar Fjarskiptastofu, segir að kallað hafi verið eftir upplýsingum um það hvort kafbátar hafi sést í nánd við íslenska sæstrengi, sem liggja til Írlands, Skotlands og til Danmerkur. Þær upplýsingar liggja hjá utanríkisráðuneytinu og hefur mbl.is sent fyrirspurn þess efnis.

Hann segir menn fylgjast vel með málum í tengslum við tvo rofna sæstrengi, annars vegar á milli Finnlands og Þýskalands og hins vegar á milli Svíþjóðar og Litháen. Nú fyrir skemmstu lýsti Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, því yfir að ljóst sé að skemmdarverk hafi verið framin á þeim.

Myndi taka vikur og mánuði að gera við 

„Það er á köflum mjög djúpt haf þar sem strengirnir við Ísland liggja. Ef það kæmi til þess að þeir myndu allir rofna í einu, þá værum við að horfa upp á viðgerð sem myndi taka vikur og mánuði. Á þeim tíma þyrftum við að stóla á mjög takmarkaða, forgangsraðaða bandvídd í gegnum gervitungl,“ segir Guðmundur.

Farice á og rekur sæstrengi milli Íslands og Evrópu. Hér …
Farice á og rekur sæstrengi milli Íslands og Evrópu. Hér má sjá tvo af þremur sæstrengjum. Kort/mbl.is

Hann segir að stjórnvöld telji sviðmyndina ólíklega en að sama skapi afar afdrifaríka ef til hennar kæmi.

Skoða hvort hægt verði að halda netsambandi 

„Við munum því halda stóra æfingu þar sem við líkjum eftir þessari stöðu. Fyrsti fasi þessarar æfingar mun fara fram í lok janúar á næsta ári. Í æfingunni felst að fá svör við því hvort við munum geta viðhaldið innlendu Internetsambandi ef allir strengirnir rofna. Svarið við því er já, við eigum að hafa þá tækni. En Internetið eitt og sér dugir skammt því fólk notar Internetið til að sækja efni og það er í mörgum tilfellum hýst erlendis,“ segir Guðmundur.

Hann segir að dæmi um þetta efni sé island.is og greiðslukerfi svo dæmi séu nefnd. Þau eru hýst erlendis. Einnig þjónustu sem varnar því að hægt sé að gera áhlaup á vefkerfi með því að láta of marga tengjast þeim í einu.

Æfingin í mörgum fösum 

Hann segir að í æfingunni verði hermt eftir því ef notast verður við gervihnattasamband og starfsfólk þjálfað í þeirri tækni sem þarf. „Og þá hvernig megi hámarka gæðin á lélegu Internetsambandi. Í því felst þessi æfing. Hún verður unnin í mörgum fösum í marga mánuði og fyrsti áfanginn hefst í lok janúar í samstarfi við almannavarnir,“ segir Guðmundur.

Markmiðið með æfingunni er að viðhalda netsambandi ef allir strengir …
Markmiðið með æfingunni er að viðhalda netsambandi ef allir strengir rofna. Ljósmynd/Colourbox

Menn rólegri með tilkomu þriðja strengsins 

Að sögn hans myndi það hafa lítil áhrif ef einn eða tveir strengir myndu rofna. Hins vegar væri afar slæmt ef þrír strengir myndu rofna.

Guðmundur segir að menn í stjórnkerfinu séu öllu rólegri eftir að þriðji sæstrengurinn var tekinn í gagnið á síðasta ári. Hann liggur til Írlands og þykir tæknilega betri en hinir strengirnir.

„Manni líður betur með þetta eftir tilkomu þess strengs. Og það skal tekið fram að við höfum enga ástæðu til að ætla að okkar strengir muni rofna,“ segir Guðmundur.

Að sögn Guðmundar hefur CERT-IS engar upplýsingar um kafbátaferðir við strengina. Það sé á herðum Landhelgisgæslunnar sem sjái um öryggi strengjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert