Áttu að rannsaka Flugakademíuna en gerðu það aldrei

Lilja Dögg Alfreðsdóttir var menntamálaráðherra þegar ríkisstjórn lagði til styrk …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir var menntamálaráðherra þegar ríkisstjórn lagði til styrk til flugakademíunnar gegn því að Ríkisendurskoðun rannsakaði fjármál skólans og kaup hans á Flugskóla Íslands 2019. Samsett mynd

Árið 2020 lagði ríkisstjórnin til að Ríkisendurskoðun rannsakaði fjármál Flugakademíu Íslands og kaup hennar á Flugskóla Íslands. En síðan hafði enginn samband við Ríkisendurskoðun.

Nú er akademían orðin gjaldþrota og skuldar bæði nemendum og kennurum milljónir króna.

Eins og fram hefur komið í umfjöllun mbl.is hafa langvarandi rekstrarörðugleikar Flugakademíu Íslands leitt til gjaldþrots skólans, sem hefur skuldað nemendum fé fyrir óflogna flugtíma.

Fram að lokun skólans 2023 hafði Flugakademían verið rekin með tapi frá árinu 2018. Flugakademían er í eigu Keilis, sem hefur verið í meirihlutaeigu ríkissjóðs frá samþykkt fjárlaga ársins 2021.

Ekkert samráð haft við Ríkisendurskoðun

Flugakademía Íslands varð til árið 2019 við sameiningu Flugskóla Íslands og Flugakademíu Keilis, þegar Flugakademían keypti flugskólann.

Árið 2020, lagði fjárlaganefnd til að beðini ríkisstjórnar að veita Flugakademíunni 80 milljóna króna styrk í þrjú ár til IAA með þeim tilgangi að rétta við rekstur skólans í heimsfaraldrinum. Á þessum tíma var nefndin undir formennsku Willums Þórs Þórssonar, þingmanns Framsóknarflokksins og nú heilbrigðisráðherra, en tillagan var samþykkt á Alþingi í desember 2020.

Í tillögunni voru akademíunni sett tvö skilyrði. Annars vegar áttu forsvarsmenn IAA að leitast eftir samningum við kröfuhafa og selja eignir til að lækka skuldir.

Og hins vegar átti Ríkisendurskoðun að rannsaka fjármál akademíunnar og kaup hennar á Flugskóla Íslands árið 2019.

„Ekki var haft samráð við Ríkisendurskoðun þegar ákveðið var á árinu 2020 að veita tímabundna fjárheimild í þrjú ár til Keilis Aviation Academy [þ.e. Flugakademíu Keilis]. Ríkisendurskoðun hefur ekki haft fjármál eða viðskipti akademíunnar til sérstakrar athugunar á undanförnum árum og er því engum rannsóknum eða niðurstöðum til að dreifa,“ sagði í svari Ríkisendurskoðunar við fyrirspurn blaðamanns mbl.is.

Flugakademían var eini skólinn á landinu sem bauð upp á …
Flugakademían var eini skólinn á landinu sem bauð upp á atvinnuflugmannsnám. Nú hefur námið færst undir hatt Flugskóla Reykjavíkur. Ljósmynd/Af heimasíðu Keilis.

Kyrrsetning haft áhrif á orðspor skólans

Rekstrarvandi skólans á þó ekki aðeins rætur að rekja til heimsfaraldursins, heldur komu upp atvik á árunum áður sem höfðu áhrif á rekstur skólans.

Í apríl 2017 kyrrsetti Samgöngustofa flugvélar Keilis þegar upp komst um að réttindi tæknistjóra Flugakademíunnar væru ekki eins og þau áttu að vera en tæknistjórinn hafði þar með ekki réttindi til að skrifa upp á að vélarnar væru í lagi.

Í ágúst 2018 kyrrsetti Samgöngustofa, í samvinnu við skólann, allar 14 flugvélar Keilis í allt að þrjá mánuði þar sem að flug­virki sem vottaði fyrir ástand vél­anna hafði ekki tilskyld réttindi.

Kostnaður við kyrrsetninguna 2018 nam um 126 m. kr. og skýrir að miklu leyti þann viðsnúning sem varð á rekstri Flugakademíu Keilis á milli áranna 2017 og 2018, að því er fram kemur í ársreikningi IAA það ár.

Flugakademía Keilis skilaði 92 m.kr. tapi 2018 og eigið fé hennar í árslok nam 26 milljónum og hafði þá dregist saman um rúmlega 90 milljónir.

Kennarar við skólann sem mbl.is hefur rætt við lýsa því að þessi mál hafi haft slæm áhrif á orðspor skólans erlendis. Stór tekjulind skólans hafi á þessum tíma verið flugnemar frá Norðurlöndunum sem komu til Íslands í flugnám.

Keilir reyndi næstu ár að bæta ímynd skólans, bæði innanlands sem erlendis. Í ársreikningi 2021 kemur fram að skólinn hafi ætlað sér að „byggja upp fyrri ímynd þeirra öflugu íslensku flugskóla sem þekktir voru hér áður um gjörvöll Norðurlöndin og höfðu aðdráttarafl bæði íslenskra og erlendra nemenda - ímynd sem nú verður endurheimt“.

Áttu litla innistæðu fyrir nýjum skóla

Eftir að hafa goldið fjárhagslegt afhroð vegna kyrrsetninga árið 2018 ákvað Flugakademía Keilis að festa kaup á Flugskóla Íslands í janúar 2019.

Fyrri hluta árs 2018 var Flugskóli Íslands í eigu Tækniskólans og hafði verið það frá 2006. Tækniskólinn vildi þá selja skólann og hugnaðist Keili að kaupa, en samningar náðust ekki milli Keilis og Tækniskólans.

Þá ákváðu gamlir eigendur Flugskóla Íslands og stjórnendur hans að kaupa hann af Tækniskólanum. Hagnaður Tækniskólans af sölunni í júní 2018 nam 146 m.kr. Flugskólinn heyrði þá undir nýtt félag.

Keilir miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs hefur verið í 51% …
Keilir miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs hefur verið í 51% eigu ríkissjóðs frá því að fjárlög fyrir 2021 voru samþykkt. mbl.is/Sigurður Bogi

Hálfu ári síðar seldu nýju eigendurnir skólann til Flugakademíu Keilis, sem virtist þá hafa skipt um skoðun. Í janúar 2019 skrifuðu stjórnendur Keilis undir kaupsamning við Flugskóla Íslands.

„Þau viðskipti sem við [Tækniskólinn] vorum að reyna að ná við Keili skömmu áður, þau voru á allt öðrum tölum en skólinn greiðir síðan mánuðum seinna,“ sagði Jón B. Stefánsson í Flugvarpinu í apríl, sem var skólastjóri Tækniskólans 2018, og seinna stjórnarformaður Keilis og Flugakademíu Íslands.

Við söluna varð til viðskiptavild upp á 220 milljónir króna, samkvæmt ársreikningum. Sú viðskiptavild raungerðist þó aldrei í jákvæða eign.

Hið opinbera fjárfesti í hrapandi flugvél

Með fjárlögum 2021 sem voru síðan endanlega samþykkt var einnig ákveðið að ríkissjóður legði 190 m.kr. hlutafé í Keili ehf. gegn því að sveitarfélögin á Suðurnesjum greiddu jafnframt til viðbótar 180 m.kr. inn í félagið.

Þannig varð ríkissjóður meirihlutaeigandi félagsins í móðurfélaginu Keili, sem á síðan 70% í Flugakademíunni. Eignahlutafélag Suðurnesja á hin 30 prósentin.

Samt hélt tap skólans áfram þrátt fyrir inngrip hins opinbera. Árið 2021 nam tapið 7 m. kr., –krækiber í víti saman borið við 202,5 milljóna tap árið 2022, en þá var eigið fé skólans orðið neikvætt um 393,5 milljónir og greinilega orðin byrði á móðurfélaginu.

Flugskóli Íslands var stofnaður af ríkissjóði 1998. Hann var síðan …
Flugskóli Íslands var stofnaður af ríkissjóði 1998. Hann var síðan einkavæddur árið 2006 og seldur til einkaflugskóla, sem seldi síðan skólann til Tækniskólans það sama ár. Árið 2018 var skólinn aftur keyptur af gömlu eigendunum sem seldu síðan skólann til Keilis hálfu ári síðar í janúar 2019. Ljósmynd/Erling Ó. Aðalsteinsson

Keilir gerir upp við nemendur

Í september 2023 tilkynnti Flugaka­demía Íslands að hún myndi hætta rekstri. En þá átti fjöldi nemenda enn inni fé hjá skólanum, talið í tugum milljóna.

Eftir gjaldþrot skólans hefur móðurfélagið Keilir tekið að sér það verkefni að greiða nemendum til baka og segir Jón B. Stefánsson, stjórnarmaður Keilis, að gert verði upp við alla nemendur um leið og búið er að selja húsnæði Flugakademíunnar.

Einhver tilboð hafi borist en Jón gat ekki tjáð sig meira um það þegar mbl.is hafði samband.

Skólinn hafði endurgreitt nokkrum nemendum, en þrotabú skólans krefur nemendur nú aftur um þá fjárhæð. mbl.is ræddi á dögunum við fyrr­ver­andi nem­anda við Flugaka­demíuna sem brá í brún þegar krafa barst í vik­unni frá þrota­búi skól­ans upp á 2,4 millj­ón­ir króna fyr­ir tíma sem aldrei voru sótt­ir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert