Aðhald nægilegt þrátt fyrir 70 milljarða halla

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segir að það hafi verið nokkur brekka fyrir flokkinn að hefja kosningabaráttu við núverandi aðstæður.

Hann segist þó skynja jákvæðari tón í garð flokksins nú þegar hann hefur komist frá þinginu sem afgreiddi fjárlög í upphafi vikunnar. Hann er nýjasti gestur Spursmála og síðasti flokksformaðurinn sem mætir á þennan vettvang í aðdraganda kosninganna.

Mjúk lending að nást

Sigurður Ingi segir að hagkerfið sé að ná mjúkri lendingu. Meiri halli af fjárlögum en lagt var upp með í upphafi sé til marks um að markmiðið sé að nást hraðar en gert var ráð fyrir.

„Það er afleiðingin af því að við erum að lenda hraðar. Við erum að sækjast eftir þessari mjúku lendingu og okkur er að takast það sem fáum vestrænum löndum hefur tekist að lenda hagkerfinu eftir mikla þenslu og geta farið mjög hratt upp. Þetta er næstum eins og snertilending ef maður talar eitthvert flugmál.“

Segir hann íslenska hagkerfið vera að vaxa út úr þeim vanda sem það rataði í vegna gríðarlegs höggs af völdum covid-faraldursins, verðbólguskots og hækkandi vaxta.

Sigurður Ingi og Stefán Einar ræða fjárlögin.
Sigurður Ingi og Stefán Einar ræða fjárlögin. mbl.is/María Matthíasdóttir

Hlutföllin skipta öllu

En þið hafið lofað því að það verði farið að greiða niður skuldir og þið segið reyndar í yfirlýsingu sem mér finnst ansi bratt af ykkur að segja að skuldir séu að lækka. En þær eru að lækka sem hlutfall af öðrum reiknuðum stærðum.

„Sem þær eru auðvitað alltaf að gera.“

En þær eru að aukast í milljörðum talið.

„En tekjur eru líka að aukast í milljörðum talið.“

En það eru tekjur sem er verið að taka af fólki og fyrirtækjum.

„Það eru hlutföllin sem skipta öllu máli í þessu.

Er það?

„Það eru þau sem skipta öllu máli. Það eru þau sem við berum okkur saman við.“

En bíddu. Þið borgið prósentuvexti af ykkar lántökum út frá krónutölunni eða dollurunum eða evrunum sem þið skuldið en ekki út frá hlutföllunum. Þannig að ef þið skuldið 70 milljörðum meira í lok næsta árs en þið gerðuð núna í ár þá hækka vaxtagjöldin nema vextirnir fari verulega niður.

„Já, og vextirnir eru að fara verulega niður og tekjurnar eru að vaxa og þær munu vaxa meira því aðhaldsstigið sem við sýndum í fjármálaáætluninni mun koma okkur í jafnvægi. Við erum orðin það bjartsýn því það virðist ganga það vel fram á við að við treystum okkur til að ná ríkissjóði í jafnvægi strax árið 2026.“

Viðtalið við Sigurð Inga má sjá og heyra í heild sinni hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert