Skilur við Viðreisn vegna geðheilbrigðisstefnu flokksins

Systir Starra lést aðeins viku eftir að hún útskrifaðist af …
Systir Starra lést aðeins viku eftir að hún útskrifaðist af geðdeild Landspítalans. Þó Viðreisn beri heilbrigðismál hátt á lofti telur Starri flokkinn ekki berjast fyrir „raunhæfum“ lausnum, en hann var áður í framboði fyrir flokkinn. Samsett mynd

Fyrrverandi forseti ungliðahreyfingar Viðreisnar hefur sagt skilið við flokkinn. Hann segir stefnumál Viðreisnar í geðheilbrigðismálum skorta raunverulegar tillögur að úrbótum, en systir hans svipti sig eigin lífi fyrir tæpum þremur árum.

Nú er hann skráður í Samfylkinguna og hyggst greiða flokknum atkvæði sitt þegar landsmenn ganga að kjörborðinu á laugardag.

Starri Reynisson gekk til liðs við Viðreisn árið 2018, þar sem hann vildi þá berjast fyrir einstaklingsfrelsi og Evrópusambandsaðild – sjónarmið sem eru honum þó ekki efst á baugi í dag. Hann var um hríð formaður Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar, og skipaði 3. sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi í síðustu kosningum 2021.

Starri hefur þó ekki verið virkur í starfi flokksins síðan í október 2021. Í desember þess sama árs varð hann fyrir því áfalli að systir hans, Urður Pálína, féll fyrir eigin hendi aðeins 23 ára.

„Það vantar alla áherslu á eflingu opinberrar geðheilbrigðisþjónustu á Landspítalanum,“ segir Starri í samtali við mbl.is en systir hans féll frá aðeins viku eftir að hafa útskrifast af geðdeild Landspítalans.

Hann telur að dvöl Urðar þar hafi í raun gert illt verra, frekar en að hjálpa, og bendir í því samhengi á að geðheilbrigðiskerfið sé vanfjármagnað. 

Starri Reynisson, fyrrverandi forseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar. Myndin er frá …
Starri Reynisson, fyrrverandi forseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar. Myndin er frá kosningabaráttu flokksins 2021. Ljósmynd/Viðreisn

Þarf að tala við sérfræðingana

Viðreisn hefur vissulega mikið talað fyrir úrræðum í geðheilbrigðismálum í sinni kosningabaráttu.

„En svo eru engar raunverulegar útfærslur að finna nema niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu og enduropnun Stuðla, og bætt meðferðarúrræði,“ segir Starri, sem þykir kosningabarátta flokksins oft á tíðum frasaþung.

„Það vantar stóru myndina, vegna þess að ef þú ert ekki raunverulega búinn að tala við sérfræðinga í mála flokkun eins og Samfylkingin hefur verið að gera þá breytist ekkert til lengri tíma,“ segir Starri, sem lýsti því yfir á Facebook í dag að hann hygðist kjósa Samfylkinguna frekar en sinn gamla flokk.

Hann segir við mbl.is að hann hafi verið skráður í flokkinn síðan í ágúst.

Í færslunni sagðist Starri aukinheldur að í Viðreisn mætti enn finna „blákalda hægritaug“ og segir að vanfjármögnun velferðarkerfisins og „miskunnarlaus aðhaldskrafa“ á stofnanir þess sé kjarninn í þeirri „hægri hagstjórn” sem Viðreisn hefur boðað í kosningabaráttunni.  Hann tekur þó fram að í Viðreisn sé fullt af góðu fólki.

Jasmina Vajzovic Crnac, ein af stofnendum Viðreisn­ar í Reykja­nes­bæ sem sagði sig úr flokknum á dögunum, skrifar undir færslu Starra: „Ég styð þig alltaf og frábær forgangsröðun. Þú ert á sama stað og ég hvað varðar Viðreisn. Það sé tekið skýrt fram þá er frábært fólk í Viðreisn en hægri áheyrslur eru of miklar að þessu sinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert