Gangast við broti og greiða 750 milljónir í sekt

Ásta Fjeldsted forstjóri Festar.
Ásta Fjeldsted forstjóri Festar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Festi hf., móðurfélag Elko, Krón­unn­ar, N1 og Lyfju, hefur gert sátt við Samkeppniseftirlitið þar sem fyrirtækið viðurkennir brot á sátt og greiðslu á sekt upp á 750 milljónir. Gengst félagið við því að hafa brotið skilmála sáttar frá árinu 2018 við samruna N1 hf. og Festi hf. 

Í tilkynningu Festar til Kauphallarinnar kemur fram að með sáttinni núna sé viðurkennt að brotið hafi verið gegn tilteknum ákvæðum sáttarinnar frá 30. júlí 2018 og tekur tillit til eftirfarandi þátta á afmörkuðum tímabilum:

  • Að nýjum aðila hafi upphaflega verið synjað um tilboð í heildsöluviðskipti með skipaeldsneyti og að fyrirspurnum viðkomandi hafi síðar ekki verið svarað.
  • Að verðlagning á heildsöluverði bifreiðaeldsneytis til Dælunnar hafi ekki verið í samræmi við kostnaðarforsendur sáttarinnar á hverjum tíma og að gripið hafi verið til annarra aðgerða sem hafi verið til þess fallnar að hafa áhrif á samkeppnisstöðu hennar og verðmæti eigna.
  • Að ekki hafi verið tryggt með fullnægjandi hætti að heildsölutengiliður og starf hans uppfyllti skilyrði sáttarinnar á hverjum tíma.
  • Að verslun á Suðurlandi hafi ekki verið seld fyrr en eftir að tímamörk sáttar var liðin til að framkvæma söluna.
  • Að Festi hafi ekki beitt sér nægjanlega snemma fyrir því að viðræður um endurskoðun samnings við keppinaut yrðu hafnar og þeim lokið innan tímamarka sáttar og að skráning samskipta í samskiptaskrá væri í samræmi við kröfur sáttar.
  • Að óháðum kunnáttumanni hafi ekki verið veittar nauðsynlegar upplýsingar og aðstoð við eftirlit með sáttinni.

Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að Festi viðurkenni að hafa brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga um upplýsingaskyldu með því að hafa ekki veitt tímanlega nauðsynleg og fullnægjandi gögn í þágu rannsóknar viðkomandi samrunamáls og með því að hafa ekki gert Samkeppniseftirlitinu fullnægjandi grein fyrir sjónarmiðum félagsins við gerð sáttarinnar á árinu 2018.

Mun Festi greiða sektina á þessum ársfjórðungi og mun það hafa áhrif til lækkunar á afkomu félagsins á þessu ári.

Þá segir félagið að með undirritun sáttarinnar teljist málinu endanlega lokið gagnvart Festi og að ekki muni koma til frekari rannsóknar eða málsmeðferðar gagnvart félaginu, starfsfólki eða öðrum einstaklingum af hálfu Samkeppniseftirlitsins.

Haft er eftir Ástu Fjeldsted, forstjóra Festar að sektin nemi um 0,54% af heildarveltu félagsins í fyrra. „Það var mat félagsins að rétt væri að ljúka þessu máli með sátt og horfa fram á veginn. Við drögum lærdóm af málinu og horfum til framtíðar“, er haft eftir Ástu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert