Þyrfti viðhorfsbreytingu frá Sjálfstæðisflokki og Miðflokki

Ragnar Þór segir vatnið frekar renna í átt að samstarfi …
Ragnar Þór segir vatnið frekar renna í átt að samstarfi við Samfylkingu og Viðreisn frá sínum bæjardyrum séð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum komin í allt aðra stöðu en við vorum áður í,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson. Hann segir kosningarnar hafa gengið vonum framar í öllum kjördæmum.

Ragnar leiddi lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður og segir flokkinn kominn í allt aðra stöðu vegna fylgisaukningarinnar.

„Við stækkum um 50% sem þingflokkur og erum komin í ríkisstjórnarmyndunarstöðu. Við erum komin í allt aðra stöðu en flokkurinn hefur áður verið í.“

Sammála Sigmundi Davíð

Það sé fagnaðarefni enda vilji flokkurinn ekki einungis vera á þingi til að gagnrýna það sem betur megi fara heldur til að koma á breytingum.

Spurður hvort hann sé sammála Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, um að Flokkur fólksins hafi sigrað í kosningunum svarar Ragnar játandi.

„Mér finnst við standa upp úr í þessum kosningum hvað það varðar. Að vera nýr og lítill flokkur sem er kominn í þessa stöðu er auðvitað afrek út af fyrir sig.“

Hvað mögulega stjórnarmyndun varðar segir Ragnar það undir formanni flokksins, Ingu Sæland, komið og að hann treysti henni fyllilega til þess að fara með það umboð.

Ragnar segir það algjörlega undir formanni flokksins komið að taka …
Ragnar segir það algjörlega undir formanni flokksins komið að taka ákvörðun um mögulega þátttöku í ríkisstjórn. mbl.is/Karítas

Dettur helst Samfylking og Viðreisn í hug

Spurður hvort þriggja flokka ríkisstjórnarsamstarf milli Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Flokks fólksins myndi hugnast honum svarar Ragnar játandi enda sé augljóst ákall um breytt stjórnarmynstur frá þjóðinni.

„Þetta er kannski það sem flestum dettur í hug í fyrsta kasti og meðal annars mér.“

Spurður út í mögulega stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokki og t.d. Miðflokki kveðst Ragnar hvorki vera í stöðu til að útiloka einn né neinn eða taka ákvörðun um það.

„Ég segi kannski frekar að málefnalega séð þá sýnist mér vatnið renna frekar í hina áttina. Það þyrfti þá að vera, tel ég, meiriháttar viðhorfsbreyting þeirra flokka ef það ætti að ganga. Það væri þá undir þeim komið.“

Fylgja málefnunum frekar en stólunum

Flokkur fólksins muni fyrst og fremst fylgja eftir sínum málefnum frekar en að horfa á einhverja tiltekna stóla. Svipað og í kjaraviðræðum reyni flokkar auðvitað að knýja fram sínar helstu kröfur og málefni.

„Við erum auðvitað mjög meðvituð um það að ef við komum til álita að vera í ríkisstjórn þá þurfum við að forgangsraða okkar helstu stefnum.“

Helst séu það húsnæðismálin sem brenni á honum og kveðst Ragnar telja að flestir geti sammælst um að ófremdarástand ríki á þeim markaði og að allir flokkar skynji það ákall.

Sömuleiðis sé helsta stefna flokksins að beita sér fyrir framfærslu þeirra sem hafi minnst milli handanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert