Útiloka ekki Samfylkingu: Meiri samleið með Viðreisn

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varformaður Sjálfstæðisflokksins.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ólafur Árdal

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir niðurstöður kosninganna skárri en útlit var fyrir á tímabili. Þó sé sárt að missa tvo þingmenn.

„Það sem maður tekur út úr þessu er náttúrulega að miðað við styrk flokkanna þá virðist almenningur ekki vera að kalla sérstaklega eftir vinstri stjórn.“

Segir Þórdís það vissulega ákveðinn létti að sjá að Sjálfstæðisflokkurinn sæti vægari refsingu en hinir tveir ríkisstjórnarflokkarnir, fyrir það eitt að vera ríkisstjórnarflokkur eins og algengt sé þegar flokkar hafi verið lengi við stjórn.

Telur Þórdís það að málstaðurinn sé góður fyrst og fremst liggja þar að baki og það að fólkið í landinu tengi við hann. Það sé ekki síður saga flokksins og mannauðurinn innan hans sem hafi tryggt Sjálfstæðismönnum betra fylgi en fyrst voru horfur til.

Útiloka ekki samstarf við Samfylkingu

Spurð hvort flokkurinn útiloki samstarf við Samfylkinguna sem séu óneitanlega með ólík stefnumál og áherslur segir Þórdís Sjálfstæðisflokkinn almennt lítið fyrir að útiloka samstarf áður en fólk hefur sest niður og rætt málin saman.

Það sé þó að sjálfsögðu erfiðara að koma sér saman um málefni þegar um sé að ræða flokka með gagnstæð sjónarmið og þversagnir í áherslum.

„Við höfum sannarlega talað fyrir því að vera í borgaralegri ríkisstjórn sem að gengur í takt og getur farið í mörg mikilvæg og stór verkefni en á endanum fer það eftir málefnum og hvað er hægt að koma sér saman um.“

Ekki hægt að komast hjá málamiðlunum

Spurð hvort frekar kæmi til greina að hefja samstarf með Viðreisn og þriðja flokki þrátt fyrir að Viðreisn eigi uppruna sinn í klofningi úr Sjálfstæðisflokknum svarar Þórdís að eflaust sé meiri hugmyndafræðileg samleið þar á milli þó að vissulega séu atriði sem skilji að.

„Ég get alveg sagt fyrir mitt leyti að mér þætti skrítið ef Sjálfstæðisflokkurinn færi að leggja einhverja sérstaka áherslu á það að vinna ekki með flokki sem er nálægt okkur hugmyndafræðilega,“ segir Þórdís.

„Auðvitað finnur maður fyrir því að það er kallað eftir minni málamiðlunum í íslenskum stjórnmálum en þegar að þú þarft þrjá flokka til að sitja í ríkisstjórn og taka þessa ábyrgð á íslensku samfélagi þá gerirðu það ekki án þess að gera nokkra einustu málamiðlun.“

Lifum á örlagatímum

Nú sé ekki annað að gera en að bíða og sjá hvað úr verði á næstu dögum en að fyrir liggi að það þurfi að mynda stjórn sem geti gengið í takt og tekist á við stór verkefni.

Það liggi þó í augum uppi að þörf sé á reynslumiklu fólki við stjórnvölinn sem taki verkefnunum alvarlega

„Ég þreytist ekki á að benda á að við lifum á örlagatímum og það eru ytri aðstæður og staða í álfunni okkar sem við höfum ekki séð á lýðveldistímanum og við verðum að taka því alvarlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert