Stjórnarmyndunarviðræður Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins halda áfram í dag en fundur hófst klukkan 9.30. Fundurinn er haldinn í Smiðju, skrifstofuhúsnæði Alþingis.
Þetta staðfestir Ólafur Kjaran, aðstoðarmaður Kristrúnar Frostadóttir formanns Samfylkingarinnar, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.
Kristrún sagði í samtali við mbl.is í gær að fundurinn í gær hefði gengið vel. Hinar breiðari strokur mögulegs stjórnarsamstarfs hefðu verið ræddar, en stakar aðgerðir og ráðherraskipan síður.
„Allt sem er rætt um í dag er til þess að tryggja áframhaldandi lækkun vaxta og verðbólgu. Við erum að þreifa fyrir okkur á stöðunni í ríkisbúskapnum auk þenslu í hagkerfinu. Þetta er á meðal þess sem verður rætt á morgun,“ sagði Kristrún í samtali við mbl.is í gær.