Það hefur mikið mætt á starfsmönnum Árekstur.is í vikunni en frá því á mánudaginn hafa vel yfir 100 óhöpp verið skráð hjá fyrirtækinu.
Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri hjá Árekstur.is, segir að síðustu dagar hafi verið annasamir og hafi þurft að bæta við mannskap og bílum til að sinna verkefnum.
Í gær varð til að mynda þriggja bíla árekstur á bílastæði við Borholt þar sem bílarnir runnu á hvor annan og komust ekki út af bílastæðinu vegna hálku.
„Við höfum farið í útköll á stofnbrautum og ekki síður á bílastæði út um alla borg en þau eru mörg hver eitt klakastykki og margir árekstrar hafa orðið á þeim. Fólk er að koma inn á þau á lítilli ferð en ráða ekkert við bíla sína sem skauta í þessari miklu hálku,“ segir Kristján við mbl.is.
Hann segir allt of mikið um að bílar séu vanbúnir.
„Við erum að sjá sorglega marga aka enn um á sumardekkjum.“