Hundruð listamanna á Íslandi hafa sett nafn sitt á undirskriftarlista sem kallar eftir menningarlegri sniðgöngu á Ísraels vegna þjóðarmorðs og stríðsglæpa gagnvart palestínsku þjóðinni.
Sviðslistakonan Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir stendur að baki undirskriftalistanum. Hún segir að söfnunin hafi byrjað í sumar á listahátíðinni Lunga þar sem hún fór að safna undirskriftum frá listamönnum.
Hinn 5. desember ákvað Salvör svo að setja undirskriftalistann á netið og fékk hún grafíska hönnuðinn Grétu Þorkelsdóttur til að hjálpa sér við að hanna vefsíðuna.
Páll Óskar, Svala Björgvinsdóttir og Hugleikur Dagsson eru á meðal hundruð listamanna á Íslandi sem hafa sett nafn sitt á undirskriftalistann.
Á þeim þremur dögum sem liðnir eru frá því að listinn birtist á netinu segir Salvör að um 250 undirskriftir hafi bæst við og eru þær nú alls 337.
„Pælingin er bara að taka alla listamenn undir einn hatt og að fólk sé með þessu í rauninni að segja að það ætli að taka þátt í þessari menningarlegu sniðgöngu á Ísrael á meðan bæði þjóðarmorð og aðskilnaðarstefna eru í gangi,“ segir Salvör.
Segir hún að með því sé verið að reyna að búa til þrýsting og nefnir hún aðskilnaðarstefnu Suður-Afríku sem dæmi og hvernig ekkert menningarsamstarf á milli Suður-Afríku og annarra landa hafði áhrif á að stefnan leið undir lok.
„Þetta var svona einn af þessum hlutum sem hafði mikil áhrif. Þannig að ég trúi á þetta, að þetta geti haft áhrif,“ segir Salvör.
Ekki er langt síðan Amnesty International birti rannsóknarskýrslu þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að nægilegur grundvöllur sé til að álykta að Ísrael hafi framið og haldi áfram að fremja hópmorð gegn Palestínubúum á Gasasvæðinu og játar Salvör að það hafi haft áhrif á birtingu undirskriftalistans á netinu.
Hún nefnir þó einnig að dánardagur palestínska skáldsins Refaat Alareer, sem lést 6. desember 2023, hafi líka átt sinn þátt í birtingu listans.
„Hann var drepinn af Ísraelsher og hann notaði röddina sína mjög mikið gegn hernáminu og gegn Ísraelsher,“ segir Salvör og bætir við:
„Það var líka áminning að rödd listamanna getur skipt máli og ógnar oft valdinu af því hún heyrist svo hátt.“
Á síðu undirskriftalistans segir að undirritaðir lýsi yfir stuðningi við palestínsku þjóðina og baráttu hennar fyrir frelsi, réttlæti og tilvistarrétti sínum gagnvart ísraelskri nýlendustefnu og þjóðarmorði.
Þá er því lýst yfir að listafólkið muni ekki þiggja boð um að koma fram eða sýna verk sín í Ísrael og muni ekki taka við styrkjum frá stofnunum er tengjast ísraelsku ríkisstjórninni.
„Með yfirlýsingu okkar viljum við ekki aðeins sýna samstöðu okkar með Palestínu í verki, heldur einnig krefjast þess að íslensk stjórnvöld, sem og alþjóðasamfélagið, beiti sér fyrir því að framferði ísraelskra stjórnvalda verði stöðvað og neyðaraðstoð komið inn á Gaza tafarlaust. Við hvetjum alþjóðasamfélagið til þess að samþykkja ekki óbreytt ástand heldur viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu, styðja afnýlenduvæðingu hernuminna palestínskra svæða sem og orðræðu og þekkingar, og að beita sér fyrir því að enda aðskilnaðarstefnuna,“ segir á síðunni.
Listann má finna hér.