Mikið traust ríkir á milli formanna Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins og eitthvað einkennilegt þarf að gerast svo ekki verði af ríkisstjórn flokkanna. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, vonast til þess að ríkisstjórn verði mynduð fyrir jól og hún telur mögulegt að umræður um skiptingu ráðuneyta hefjist á morgun.
Þetta segir Inga í samtali við mbl.is.
„Það ríkir alveg ofboðslega mikið traust á milli okkar og kærleikur og við eigum gott með að tala saman. Okkur líður vel saman og ég er bjartsýn og brosandi. Það má eitthvað einkennilegt koma upp á ef þetta fer í skrúfuna,“ segir Inga.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Inga funduðu saman í dag.
Hún segir að sameiginlegir fletir séu margir en vill ekki ræða að svo stöddu hver ágreiningsmálin eru.
Í síðustu viku var greint frá því að formennirnir hefðu rætt Evrópusambandsmál. Spurð að því hver niðurstaðan hafi verið segir Inga að þau mál séu ekki til umfjöllunar á þessu stigi.
„Við erum enn að vinna í málefnunum þannig það er ekki ástæða til að ræða þau frekar,“ segir hún.
Heimildarmaður sagði í Morgunblaðinu í dag að stjórnarmyndunarviðræðum gæti lokið fyrir jól.
Hefur þú trú á því að þið myndið ríkisstjórn fyrir jól?
„Það væri náttúrulega yndislegt. Maður getur alveg látið sig dreyma um það og verið bjartsýnn á það. Ég er bara bjartsýn og ég er að vona það, þar til annað kemur í ljós,“ segir Inga.
Hún segir að formennirnir hafi ekki snert á skiptingu ráðuneyta en telur að það gæti gerst á morgun. Fyrst og fremst hafi verið farið yfir málefnin og sameiginlega fleti.
„Ég hugsa að við kíkjum eitthvað á það á morgun,“ segir hún spurð um það hvort búið sé að fara yfir skiptingu ráðuneyta.
Eitt kosningaloforð Flokks fólksins var að hækka skattleysismörk í 450.000 hjá þeim sem hafa lágar tekjur. En yrði þetta loforð að veruleika í þessari ríkisstjórn, verði hún að veruleika?
„Ég vona það. Ég er að vona að hún sé á vetur setjandi í fjögur ár, það er markmiðið að minnsta kosti og ég er vona það. Það er mín bjargfasta trú að við eigum eftir að gera marga góða hluti, allir þessir flokkar, til betri vegar fyrir land og þjóð,“ segir Inga en bætir við:
„Eins og virðist nú stundum gleymast að þetta eru þrír stjórnmálaflokkar, ekki einn. Það liggur alveg á borðinu að þegar svoleiðis er þá eru málamiðlanir alls staðar. Það er alveg sama hvað flokkurinn heitir.“
Annað loforð var að tryggja öryrkjum og eldri borgurum 450.000 á mánuði skatta- og skerðingarlaust.
Heldurðu að það geti orðið að veruleika í þessari ríkisstjórn?
„Það er ekkert ómögulegt, ekki neitt. Það er ekkert ómögulegt í mínum huga. Það er bara viljinn sem þarf,“ svarar Inga.
Á morgun bætast svo vinnuhópar við stjórnarmyndunarviðræðurnar þar sem verður farið ofan í kjölinn á stórum málum á borð við efnahagsmálin, heilbrigðismálin og húsnæðismálin.
„Við erum að vona að við getum farið langt með vinnuhópana í þessari viku, við sjáum bara til. Þetta er mjög yfirgripsmikið, þetta er ekki eins og að baka smákökur fyrir jólin,“ segir Inga.