Ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins verður mynduð öðru hvorum megin við jól. Þó stjórnarmyndunarviðræður gangi vel þá er ekki búið að ná lendingu í öllum málaflokkum.
Þetta herma heimildir mbl.is.
Erfiðlega hefur gengið að fá upplýsingar um stöðu viðræðnanna að undanförnu en þann 3. desember ákváðu flokkarnir að hefja stjórnarmyndunarviðræður.
Ritstjórn hafði samband við alla þingmenn fyrrnefndra flokka, 36 talsins, og lítið var um svör varðandi gang viðræðnanna. Af þeim sem svöruðu var lítið sagt annað en að viðræður gengju vel fyrir sig en svo var vísað á formennina.
„Ég held að þetta sé svona allt samkvæmt áætlun. Það er svona eina sem ég get sagt,“ segir Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is og vísar á formann flokksins, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.
Af tíu þingmönnum Flokks fólksins náðist í fimm þingmenn. Guðmundur Ingi Kristinsson, Jónína Björk Óskarsdóttir, Ragnar Þór Ingólfsson, Sigurður Helgi Pálmason og Sigurjón Þórðarson sögðu að stjórnarmyndunarviðræður gengju vel en að þau ætluðu ekki að tjá sig frekar um málið að svo stöddu.
Af 11 þingmönnum Viðreisnar þá svöruðu sex símanum og vísuðu þeir flestallir á formenn flokkanna fyrir nánari upplýsingar. Voru það þingmennirnir Pawel Bartoszek, Grímur Grímsson, Eiríkur Björn Björgvinsson, Sigmar Guðmundsson, Jón Gnarr og Ingvar Þóroddsson.
„Það er ekkert sem þetta er að stranda á í augnablikinu, að mér vitandi,“ segir Ingvar, spurður hvort að það séu einhver óleyst mál sem gætu komið í veg fyrir stjórn.
„Það er bara verið að taka sér góðan tíma í að vinna þetta allt saman,“ segir Ingvar og tekur fram að hann beri fullt traust til Þorgerðar til að leiða þetta lykta.
Verst gekk að ná í þingmenn Samfylkingarinnar en af fimmtán þingmönnum þá voru níu þingmenn sem létu ekki ná í sig.
Fimm þingmenn vísuðu á formanninn og þar af var Sigmundur Ernir Rúnarsson, sem bar fyrir sig að hann væri ekki enn orðinn þingmaður. Allavega ekki þar til að Þórður Snær Júlíusson hefði formlega afþakkað þingsæti sitt, sem hann hyggst gera þegar Alþingi verður sett að nýju.
Arna Lára Jónsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vísar á formanninn en segir þó að viðræður gangi vel. Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir í samtali við mbl.is að viðræður gangi vel.
„Staðan er bara mjög góð. Menn sitja við skriftir og móta sáttmálann,“ segir Guðmundur en vísar að öðru leyti til formannsins, Kristrúnar Frostadóttur.
Viðreisn
Þingmenn Viðreisnar sem svöruðu ekki:
Þingmenn Viðreisnar sem kusu að tjá sig ekki:
Þingmenn Viðreisnar sem kusu að tjá sig:
Samfylkingin
Þingmenn Samfylkingar sem svöruðu ekki:
Þingmenn Samfylkingar sem kusu að tjá sig ekki:
Þingmenn Samfylkingar sem kusu að tjá sig ekki, að öðru leyti en að viðræður gengju vel:
Flokkur fólksins
Þingmenn Flokks fólksins sem svöruðu ekki:
Þingmenn Flokks fólksins sem kusu að tjá sig ekki, að öðru leyti en að viðræður gengju vel: