„Þetta er ríkisstjórn almannahagsmuna“

Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins á ríkisráðsfundi.
Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins á ríkisráðsfundi. mbl.is/Eyþór

„Það eru vetrarsólstöður, bjartara fram undan, bæði með dagana en líka með þessari ríkisstjórn. Við erum komnar til að vinna fyrir land og þjóð og hlökkum mikið til.“

Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og verðandi utanríkisráðherra, þegar hún ræddi við blaðamenn fyrir utan Bessastaði áður en hún fór á ríkisráðsfund.

„Við erum með kraftinn, hugrekkið og vitum að ábyrgð okkar er mikil. Það eru mörg vandasöm verkefni sem bíða okkar en við erum ódeigar í því að ráðast í þau og hlökkum til.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og verðandi utanríkisráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og verðandi utanríkisráðherra. mbl.is/Eyþór

Áhersla á efnahagsmálin

Þorgerður segir að helsta áherslan verði á efnahagsmálin og að ná niður vöxtum og verðbólgu áfram.

„Þetta er ríkisstjórn almannahagsmuna,“ segir Þorgerður.

Aðspurð segir Þorgerður að það hafi áhrif að ríkisstjórnin verði leidd af þremur konum.

„Ég finn í þessu að það er einlægni. Við erum búnar að takast á og búnar að ræða mjög opinskátt og hreinskilið um ýmis málefni og alltaf náð niðurstöðu. Það er ákveðinn kærleiksstrengur sem er milli okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert