Utanríkisráðherrar Norðurlandanna lýsa þungum áhyggjum af ástandinu í Georgíu, þar sem mótmæli hafa geisað eftir að nýr forseti var settur í embætti í kjölfar afar umdeildra þingkosninga.
Mikheil Kavelashvili, fyrrverandi þingmaður fyrir flokkinn Georgíska drauminn, var kjörinn nýr forseti Georgíu af georgíska þinginu fyrr í þessum mánuði en niðurstöður þingkosninganna sem haldnar voru í október eru afar umdeildar í landinu.
Evrópusambandið og stjórnarandstaða Georgíu hafa dregið í efa réttmæti kosninganna og Charles Michel, forseti Evrópuráðsins, sagði að svara þyrfti ásökunum við framkvæmd kosninganna og að gera þyrfti grein fyrir frávikum í kosningaferlinu. Fyrir vikið hafa þúsundir Georgíumanna mótmælt á götum úti.
Salome Zurabishvili, fráfarandi forseti Georgíu, sagði að kosningarnar hefðu verið „sérstök rússnesk hernaðaraðgerð“ með vísan í hvernig yfirvöld í Rússlandi hafa talað um stríðið í Úkraínu.
„Við höfum alvarlegar áhyggjur af ástandinu í Georgíu,“ segja norrænu ráðherrarnir í sameiginlegri yfirlýsingu sem birt var á vef Stjórnarráðsins.
Í yfirlýsingunni er tekið fram að ráðherrarnir hafi krafist ítarlegrar og hlutlausrar rannsóknar á þeim frávikum sem greint var frá fyrir kosningarnar og meðan á þeim stóð þann 26. október.
„Við höfum fordæmt ofbeldi og ógnir í garð friðsælla mótmælenda, stjórnmálamanna og fulltrúa fjölmiðla og við hörmum hótanirnar gagnvart Zourabichvili forseta,“ segir enn fremur en Zourabichvili er fráfarandi forseti landsins.
Ráðherrarnir segja að Georgíumenn þurfi að endurheimta traust almennings á lýðræðisstofnunum.
„Við hvetjum georgísk stjórnvöld til að taka hiklaust skref í þessa átt, meðal annars með því að innleiða kosningatillögur OSCE [Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu] og með því að íhuga möguleikann á nýjum kosningum sem byggja á þeim tillögum.“