Lýsa þungum áhyggjum af ástandinu í Georgíu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur gefið út sameiginlega yfirlýsingu með …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur gefið út sameiginlega yfirlýsingu með öðrum utanríkisráðherrum Norðurlandanna. mbl.is/Eyþór

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna lýsa þungum áhyggjum af ástandinu í Georgíu, þar sem  mótmæli hafa geisað eftir að nýr for­seti var sett­ur í embætti í kjölfar afar umdeildra þingkosninga. 

Mik­heil Kavelashvili, fyrr­ver­andi þingmaður fyr­ir flokkinn Georgíska draum­inn, var kjör­inn nýr for­seti Georgíu af georgíska þing­inu fyrr í þess­um mánuði en niður­stöður þingkosninganna sem haldnar voru í október eru afar um­deild­ar í land­inu.

Evr­ópu­sam­bandið og stjórn­ar­andstaða Georgíu hafa dregið í efa rétt­mæti kosn­ing­anna og Char­les Michel, for­seti Evr­ópuráðsins, sagði að svara þyrfti ásök­un­um við fram­kvæmd kosning­anna og að gera þyrfti grein fyr­ir frá­vik­um í kosn­inga­ferl­inu. Fyrir vikið hafa þúsundir Georgíumanna mótmælt á götum úti.

Salome Zura­bis­hvili, fráfarandi for­seti Georgíu, sagði að kosn­ing­arn­ar hefðu verið „sér­stök rúss­nesk hernaðaraðgerð“ með vís­an í hvernig yf­ir­völd í Rússlandi hafa talað um stríðið í Úkraínu.

Fordæma ofbeldi gegn mótmælendum

„Við höfum alvarlegar áhyggjur af ástandinu í Georgíu,“ segja norrænu ráðherrarnir í sameiginlegri yfirlýsingu sem birt var á vef Stjórnarráðsins.

Í yfirlýsingunni er tekið fram að ráðherrarnir hafi krafist ítarlegrar og hlutlausrar rannsóknar á þeim frá­vik­um sem greint var frá fyrir kosningarnar og meðan á þeim stóð þann 26. október. 

„Við höfum fordæmt ofbeldi og ógnir í garð friðsælla mótmælenda, stjórnmálamanna og fulltrúa fjölmiðla og við hörmum hótanirnar gagnvart Zoura­bichvili forseta,“ segir enn fremur en Zoura­bichvili er fráfarandi forseti landsins.

Ráðherrarnir segja að Georgíumenn þurfi að endurheimta traust almennings á lýðræðisstofnunum.

„Við hvetjum georgísk stjórnvöld til að taka hiklaust skref í þessa átt, meðal annars með því að innleiða kosningatillögur OSCE [Örygg­is- og sam­vinnu­stofn­un Evr­ópu] og með því að íhuga möguleikann á nýjum kosningum sem byggja á þeim tillögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert