Íslensk stjórnvöld ætla að auka varnartengdan stuðning við Úkraínu um 2,1 milljarð króna á þessu ári. Mun framlag Íslands því nema 3,6 milljörðum á þessu ári. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra greindi frá þessu í ávarpi sínu á fundi leiðtoga í Kænugarði í dag.
Tillagan, sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra, lagði fram var samþykkt fyrir helgi.
Fjárstuðningurinn verður aukinn meðal annars til að standa undir þeim skuldbindingum sem Ísland hefur gefið, meðal annars í þingsályktun Alþingis um stuðning Íslands við Úkraínu frá því í fyrra og á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins síðasta sumar.
Í ávarpi sínu á leiðtogafundinum í Kænugarði áréttaði forsætisráðherra eindreginn stuðning Íslands við Úkraínu. Sagði hún að 24. febrúar 2022 væri dimmur dagur í sögu Evrópu og að með innrás sinni hefðu Rússar þverbrotið öll alþjóðalög. Sterkari staða Úkraínu sé lykillinn að varanlegum og réttlátum friði.
„Orð eru ódýr. Verkin tala. Þess vegna hafa Norðurlönd og Eystrasaltsríkin tekið saman höndum um að styðja áfram við varnir Úkraínu með beinum hætti,” sagði Kristrún sem tilkynnti um hin auknu framlög í Kænugarði í dag.
„Við Íslendingar erum stolt af framlagi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem fara fremst á alþjóðavísu í stuðningi við Úkraínu. Á meðal okkar er full samstaða um að standa þétt með Úkraínu á þessum viðkvæma tímapunkti þegar úkraínska þjóðin heyr varnarbaráttu sem snýr raunverulega að öryggi Evrópu allrar,“ sagði Kristrún.
Með þessari ákvörðun fer varnartengdur stuðningur Íslands við Úkraínu úr 1,5 í 3,6 milljarða á árinu. Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Washington í júlí síðastliðnum skuldbundu bandalagsríkin sig til að veita að lágmarki samtals 40 milljörðum evra á ári í varnartengdan stuðning við Úkraínu þar sem byrðum yrði dreift milli ríkja í hlutfalli við verga landsframleiðslu (VLF). Samkvæmt því átti hlutur Íslands að nema 3,6 milljörðum.
Kristrún mun funda með leiðtogum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8-ríkjanna) í dag ásamt Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, þar sem áframhaldandi stuðningur og aukin framlög ríkjanna verða til umræðu.
Greint hefur verið frá því að NB8-ríkin muni í sameiningu styðja sérstaklega við eitt úkraínskt herfylki með búnaði og þjálfun. Utanríkisráðuneytið vinnur að frekari útfærslu á varnartengdum stuðningi Íslands við Úkraínu sem mun renna til sambærilegra verkefna og Ísland hefur stutt hingað til að beiðni úkraínskra stjórnvalda.