Lítur á biðlaunin sem „tímabundna afkomutryggingu“

Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins og fyrrverandi formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins og fyrrverandi formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, þingmaður Flokks fólks­ins og fyrr­ver­andi formaður VR, seg­ist hafa lagt biðlaun sem hann fékk greidd frá VR eft­ir að hann sagði af sér for­mennsku, inn á neyðarsjóð fjöl­skyld­unn­ar.

Tók hann ákvörðun um að gera það í ljósi þess að for­ystu­fólk í verka­lýðshreyf­ing­unni eigi jafn­an erfitt upp­drátt­ar á at­vinnu­markaði eft­ir starfs­lok.

Þetta seg­ir Ragn­ar Þór í færslu sem hann birti á Face­book fyr­ir skemmstu. 

Hann tek­ur einnig fram að hann hafi lækkað laun sín þegar hann tók við embætti for­manns VR og einnig þegar hann tók við for­mennsku í Land­sam­bandi ís­lenskra versl­un­ar­manna. Þá hafi hann af­salað sér laun­hækk­un­um. 

„Ég tók þetta sam­an að sam­tals lækkaði ég laun mín á þessu tíma­bili um 40,6 millj­ón­ir, sem VR/​LÍV greiddi mér í lægri laun­um en ann­ars hefði verið,“ skrif­ar Ragn­ar Þór.

Hef­ur skiln­ing á að þetta slái fólk illa 

Morg­un­blaðið greindi frá því í morg­un að hann hefði fengið greidd biðlaun og ótekið or­lof í ein­greiðslu eft­ir að hann sagði af sér for­mennsku í VR. Hljóðað upp­hæðin upp á 10,2 millj­ón­ir króna.

Seg­ist Ragn­ar Þór hafa full­an skiln­ing á því að þetta slái fólk illa, en hann vilji koma sjón­ar­miðum sín­um á fram­færi og for­sögu máls­ins.

„Ástæða þess að við hjón­in ákváðum að halda biðlaun­um er fyrst og fremst sú að ég hef litið á biðlaun­in sem mjög tíma­bundna, af­komu­trygg­ingu, þar sem for­ystu­fólk í verka­lýðshreyf­ing­unni hef­ur jafn­an átt erfitt upp­drátt­ar á vinnu­markaði eft­ir starfs­lok,“ skrif­ar Ragn­ar Þór meðal ann­ars.

Starfið fel­ist í grunn­inn í aðhaldi gegn sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins og fleiri sér­hags­munast­am­tök­um. For­menn sem hafi gengið hvað harðast fram séu því í veik­ari stöðu en aðrir hvað varðar framtíðar­at­vinnu. Fjöl­mörg dæmi séu um það.

Lík­lega sá sem hafi geng­ist harðast fram

„Sem fimm barna faðir og lík­lega sá for­ystusauður inn­an verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar sem gengið hef­ur hvað harðast fram gegn þeim sem allt eiga, og öllu ráða, í ís­lensku sam­fé­lagi tel ég mig vera ber­skjaldaðri en marg­ir aðrir í minni stöðu.

Við tók­um því þessa ákvörðum um að leggja biðlaun­in inn á neyðarsjóð fjöl­skyld­unn­ar og nýta hann þegar þess verður þörf.“

Seg­ist hann ekki búa við þann lúx­us að geta farið í leyfi, eins og op­in­ber­ir starfs­menn, og gengið að starfi eft­ir að þing­setu lík­ur eða þeim rétt­ind­um sem því fylgja, eins og biðlaun­um.

„Hvað upp­hæðir varðar þá snú­ast þær um sex mánaða laun hjá VR eða um átta millj­ón­ir fyr­ir skatt. Ég gegndi trúnaðar­störf­um fyr­ir VR í 16 ár. Þetta er hluti af þeim starfs­kjör­um sem ég samdi um í upp­hafi for­mannstíðar minn­ar, með hliðsjón af því að lækka laun­in um­tals­vert á móti.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka